miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mæðgin í keppni

17. ágúst 2019 kl. 10:40

Charlotte Cook og Sæla frá Þóreyjarnúpi á HM2019

Ekki algengt í hestamennskunni að mæðgin keppi á einu og sama heimsmeistaramótinu

 

Þó að það hafi ekki verið vísindalega rannsakað af Eiðfaxa, þá má reikna með því að það gerist  ekki oft að mæðgin keppi á heimsmeistaramóti íslenska hestsins. Reyndar kepptu á heimsmeistaramótinu 1995 þau Will Covert og móðir hans Betsy Covert fyrir landslið Bandaríkjanna.

Á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Berlín kepptu hins vegar mæðginin Sæla frá Þóreyjarnúpi og Skinfaxi fra Lysholm. Sæla frá Þóreyjarnúpi keppti fyrir hönd Bretlands en knapi hennar er Charlotte Cook. Charlotte og Sæla komu inn á mótið sem ríkjandi heimsmeistarar í 100 metra skeiði. Í þetta skiptið þurftu þau að sætta sig við silfur í þeirra grein sem og í 250 metra skeiði en Charlotte hefur gefið það út að þetta hafi verið þeirra síðasta mót því nú fari Sæla í ræktun.

Það verður að teljast góð ákvörðun þar sem Sæla hefur nú þegar sannað sig sem góð ræktunarhryssa. Sonur hennar, Skinfaxi, keppti fyrir hönd Danmerkur á HM, Søren Madsen var knapi á honum. Þeir náðu góðum árangri á heimsmeistaramótinu og urðu til að mynda í fjórða sæti í a-úrslitum í fimmgangi.

Skinfaxi er undan Kiljan frá Steinnesi og var Sæla fylfull af honum þegar hún var flutt úr landi. Sæla á 6 skráð afkvæmi, fjögur af þeim með hjálp meðgöngumóður, auk Skinfaxa er til undan henni fyrstu verðlauna stóðhesturinn Sólon fra Lysholm en faðir hans er Gjafar frá Hvoli.

Ef þið lesendur góðir munið eftir fleiri mæðginum í keppni á HM íslenska hestsins þá endilega skrifið það í ummæli fyrir neðan fréttina