þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Maður ársins á Norðurlandi

23. desember 2013 kl. 13:00

Ísólfur Líndal Þórisson

Hestamenn að slá í gegn

Undanfarin ár hefur tíðkast að velja mann ársins á Norðurlandi vestra en í ár fengu sjö aðila tilnefningu til titilsins. Í þeim hópi er Ísólfur Líndal Þórisson hestamaður. Það eru lesendur Feykis og Feykis.is sem útnefna mann ársins og hægt er að kjósa inn á feyki.is eða senda atkvæði á feykir@feykir.is eða bréfleiðis. Kosningin hefst klukkan 13:00 föstudaginn 20. desember og henni lýkur á hádegi 2. janúar á nýju ári.

Tilnefnd eru:

Elín Ósk Guðmundsdóttir á Blönduósi

Elín Ósk er skólaliði við Blönduskóla en hún kom samstarfsmanni sínum Ólafi Sigfúsi Benediktssyni til lífsbjargar þegar hann var að hlaupa norræna skólahlaupið með nemendum sínum og fór í hjartastopp. Með snöru viðbragði og kunnáttu sinni náði hún að hnoða hann þar til sjúkralið kom á vettvang.

Geirmundur Valtýsson, hljómlistarmaður

Geirmundur á að baki 55 ára hljómlistarferil en árið 2013 var „comeback“ hjá Geirmundi þar sem lögin hans voru bæði notuð í leiksýningu á Sauðárkróki og söngdagskrá með lhjá Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Bæði umrædd verkefni gerðu lukku og vöktu athygli á Geirmundi sem frábærum lagahöfundi.

Ísólfur Líndal Þórisson, Lækjamóti

Ísólfur Líndal hefur verið sigursæll í hestamennskunni og unnið til fjölda verðlauna. Auk þess að bera titilinn Íþróttamaður USVH var hann valinn gæðingaknapi ársins 2013 á uppskeruhátíð hestamanna sem fram fór á Broadway snemma í nóvember. Þá réðst Ísólfur í mikla uppbyggingu á Lækjamóti sem skiptir miklu fyrir samfélagið í Húnaþingi.

Jóna Halldóra Tryggvadóttir, Hvammstanga

Jóna Halldóra var nefnd af fleirum en einum fyrir hjálpsemi. Hún er alltaf boðin og búin til að hjálpa öðrum og á skilið mikil lof fyrir. Á það skilið að vera kosin Maður ársins.

Lárus Ægir Guðmundsson, Skagaströnd

Lárus Ægir hefur staðið fyrir ýmsum menningarviðburðum á Skagaströnd og boðið Húnvetningum að njóta með sér. Þá gaf hann flygil í Hólaneskirkju í haust. Stendur vel undir titlinum Maður ársins.

Selma Björk Stefánsdóttir, Sauðárkróki

Selma Björk er 9 ára stelpa sem býr ásamt foreldrum sínum og systkinum á Sauðárkróki. Selma er yndisleg og kát stelpa, en hún hefur barist við flogaveiki og lá m.a. inni á Barnaspítala hringsins í nokkrar vikur í haust. Selma á þennan titil skilinn þar sem hún er ótrúlega sterk og dugleg og brosir í gegnum veikindi sín. Selma Björk er hetja!

Unnur Sævarsdóttir, Hamri í Hegranesi

Unnur á Hamri kom í veg fyrir að fjósið á Egg í Hegranesi brynni ásamt öllum gripum sl. sumar. Árvekni og hröð viðbrögð hennar og hennar heimafólks varð til þess að ekki fór verr í brunanum og kom í veg fyrir að að ung hjón sem voru nýbyrjuð að búa misstu allt sitt lifibrauð sem þau voru búin að leggja mikinn metnað og ómælda vinnu í að koma á fót.