laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Má segja satt?

Óðinn Örn Jóhannsson
22. febrúar 2018 kl. 09:55

Hestur uppstilltur í kynbótadómi

Valdir leiðarar úr Eiðfaxa birtast á vefnum.

Fjölmiðlamenn eru stundum í þröngri stöðu um hvað hægt er að fjalla um og hvað ekki. Oft liggja ekki fyrir nægar upplýsingar eða mál eru af svo viðkvæmu tagi að ekki þykir siðferðislega rétt að fjalla um þau. Svo eru mál sem eru á allra vörum, upplýsingar um málið eru flestum kunnar en samt er þöggun um málið, en í mörgum tilfellum er fólk meðvirkt og vill ekki fjalla um málið af virðingu við þá sem hlut eiga að máli. Þetta á við í hestamennskunni eins og öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Til að umræða geti kallast upplýsandi er mikilvægt að allar hliðar máls komi fram. Þannig getur þá lesandi kynnt sér allar hliðar málsins og tekið þannig upplýsta ákvörðun út frá staðreyndum þess.

Kynbótastarf í hrossarækt gengur út á að meta eiginleika, greina á milli eðliskosta og umhverfisþátta og miðla þeim upplýsingum sem réttustum til ræktanda sem notar þær upplýsingar í ræktunarstarfi sínu. Ef upplýsingum sem liggja fyrir um grundvallargalla er ekki miðlað til ræktanda þá hægir á ræktunarframförum. Með þetta í huga hefur stöðugt verið unnið að endurbótum á dómskerfi og upplýsingagjöf í hrossaræktinni, rannsóknir gerðar og kröfur auknar í því miði að ná fram sem réttustum upplýsingum um upplag hrossa.

Það er mál manna að á seinni árum hafi ráðunautar í hrossarækt dregið nokkuð úr upplýsingagjöf til hrossaræktenda en þónokkrar sögur eru til um það að ráðunautar fyrri ára hafi talað mun beinna út um galla hrossanna sem þeir dæmdu og jafnvel lagt til að forðast bæri ákveðna hesta í ræktuninni eða þeir geltir. Ekki er slíkt tal til eftirbreytni en þó er mikilvægt að koma upplýsingum um grundavallargalla eins og rop, slægð, kergju og öðrum arfgengum göllum til ræktenda sem fyrst. Þessi umræða fer sjálfsagt fram á samfélagsmiðlum en þar er umræðan of oft einhliða.

Eðlilega hafa nánustu aðstandendur þeirra hrossa sem um ræðir aðra sýn á málið enda oft tilfinningaleg og jafnvel fjárhagslegar ástæður þar að baki. Nýlegt dæmi er þegar upp kom á Selfossi á íþróttamóti Sleipnis þar sem einn þekktasti stóðhestur landsins hlaut ekki einkunn vegna kergju sem hann sýndi í upphitunarhring. Eftir þann atburð urðu talsverðar umræður og sitt sýndist hverjum. Upp koma sjónarmið um hvað liggi að baki. Var hestinum ofgert ungum, er skapgerðin gölluð eða samspil fleiri þátta? Hver sem ástæðan er þá er atburður sem þessi ekki einsdæmi en áður hafa landsþekktir gæðingar ekki hlotið einkunn vegna kergju. Útskýringar hafa þá komið frá aðstandendum um álag í þjálfun, fjölda hryssna á húsmáli, hormónasjokk eða líkamlegar/andlegar skýringar.

Ekki má setja allar þessar skýringar eigenda/aðstandenda undir einn hatt og segja þær afsakanir fyrir slæmri hegðun enda vita allir þeir sem höndla með hross að margt getur komið upp á. Þó mættu fyrrnefndir oft koma hreinna fram um kosti og galla gripa þeirra sem í boði eru sem stóðhestar í almennri notkun til þess að hryssueigendur geti valið hesta á hryssur sínar sem passa. Þrátt fyrir veigamikla galla geta þessir gripir búið yfir þannig kostum að mikilvægt er að fá þá inn í stofninn og því mikilvægt að réttar upplýsingar liggi fyrir þannig að hryssur sem passa á móti komi undir hestinn. Því að sagan segir okkur að margir þeir hestar sem sýnt hafa af sér slæma hegðun í sýningum og/eða keppni hafa gefið afkvæmi sem hafa sömu galla. Ræktendur geta „leiðrétt“ fyrir göllum á þann hátt að leiða stórar hryssur undir litla hesta, skapgott á móti skapmiklu og svo framvegis.

Ég fer víða og heyri margt um menn, hesta og önnur málefni. Oft er stungið að mér „upplýsingum“ sem menn vilja koma í umræðuna en erfitt er að sannreyna margt af því sem rætt er og erfitt er að taka einn hest eða mann fyrir í slíkri umræðu. Í blaði eins og Eiðfaxa er mikilvægt að fótur sé fyrir því sem ritað er og staðreyndir liggi fyrir, en þó hefur oft komið fram að Eiðfaxi er opinn umræðuvettvangur og geta allir sem vilja senda inn greinar undir nafni fengið þær birtar. Því kalla ég fram eftir upplýstri ábyrgri umræðu þar sem allir leggjast á eitt um að koma þeim upplýsingum sem við á sem óbjöguðustum til þeirra sem þær þurfa.