mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lukku Láki frumsýndur

11. apríl 2014 kl. 00:20

Lukku-Láki og Þorvaldur

Stóðhestaveislan

Enn og aftur stefnir í mikið fjör og gæðingaval þegar Stóðhestaveislan fer fram nk. laugardagskvöld í Fákaseli í Ölfusi. Fram koma um fimmtíu hross alls, mest stóðhestar og svo afkvæmi þeirra og ættingjar. Lukku-Láki frá Stóra-Vatnsskarði kemur fram í fyrsta sinn í reið og ljóst að margir bíða spenntir eftir þeirri frumsýningu. Þá mæta Hersir frá Lambanesi, hæst dæmdi 4v hestur í heimi í fyrra, Þristssynirnir frábæru Straumur frá Feti og Steggur frá Hrísdal og Ölnir frá Akranesi sem var næsthæstur 4v hesta í fyrra, allir ungir og meira en efnilegir nú þegar. 

Að norðan koma góðir gestir, Óskasteinn frá Íbishóli og Gangster frá Árgerði, meteinkunnahestar, sem og Kristall frá Varmalæk sem vakið hefur athygli.

Af afkvæmahestum má nefna Íslandsmeistarann í tölti, Storm frá Herríðarhóli, Loka frá Selfossi, Stíganda frá Stóra-Hofi, Óm frá Kvistum, Ás frá Ármóti og Kiljan frá Steinnesi og verða sumir þeirra sýndir með afkvæmahópum sínum. Þá mæta bræðurnir Krókus og Kerfill frá Dalbæ, bræðurnir Dagur frá Þjóðólfshaga og Vákur frá Vatnsenda, synir Dáðar frá Halldórsstöðum og hinn eftirtektarverði fimmgangsmeistari Héðinn-Skúli frá Oddhóli.

Stórstjarnan Jarl frá Árbæjarhjáleigu mætir til veislunnar sem og þeir Darri Mídasarsonur frá Einhamri, Bruni frá Brautarholti Hnokkasonur og Þóroddssynirnir Glæsir frá Fornusöndum og Hvatur frá Dallandi. Þá mun heimsmeistarinn Jóhann Rúnar Skúlason heiðra sýninguna og taka þátt. 

Fleiri hestar verða kynntir til leiks á morgun, en forsala er í blússandi gangi hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi, í Líflandi, Top Reiter, Hestum og mönnum og Skalla Ögurhvarfi á höfuðborgarsvæðinu. Miðaverð er kr. 3.500 í forsölu og fylgir bókin Stóðhestar 2014 miðanum, en hún inniheldur upplýsingar um á þriðja hundrað stóðhesta í notkun á Íslandi í ár. 
Þá er rétt að minna á stóðhestahappdrættið, en miðarnir verða til sölu á sýningunni og rennur allur ágóði til fræðslunefndar fatlaðra hjá hestamannafélaginu Herði, þar sem unnið er frábært brautryðjendastarf í reiðþjálfun fatlaðra.
Nú er um að gera að tryggja sér miða í tíma og vera með í veisluhöldunum næsta laugardagskvöld!