fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Lúaleg eru launin"

22. október 2014 kl. 12:35

Haraldur Þórarinsson

Pistill eftir Jens Einarsson, ritstjóra Seisei

"Fyrir um áratug kynntist ég Haraldi Þórarinssyni á Laugardælum, er ég tók viðtal við hann í Tímaritið Hesta. Hann var þá að taka við formennsku í Landssambandi hestamanna. Með okkur tókst vinátta, sem hefur haldist síðan. Hann er drengur góður. Fáum hef ég kynnst sem ég get gefið hærri einkunn fyrir heiðarleika, greiðvikni, umburðarlyndi og réttsýni. Ég hygg að þessir mannkostir, og manngæska, hafi þó verið honum fjötur um fót sem stjórnanda í LH, eftir því sem ég hafðikost á að fylgjast með. Oft ræddum við hin ýmsu verkefni sem hann var að fást við. Í hverju máli teygði hann sig eins langt og hann gat til þess að hver og einn nyti réttar síns. Engan vill hann særa og engum troða um tær. Sennilega hafa einhver mál dregist á langin af þeim sökum, en alls ekki af því að hann hafi ekki gefið þeim tíma og sinnt þeim. Öðru nær.

Haraldur hefur gefið Landssambandi hestamanna ómælt af tíma sínum og fjármunum í þau ár sem hann hefur starfað fyrir samtökin, sem stjórnarmaður og formaður. Þótt ég hafi að sjálfssögðu ekkert yfirlit yfir það, þá hygg ég að það myndi standa í LH að greiða þann reikning ef hann væri tekinn saman og lagður fram. Ég efast ekki um að flestir sem þekkja Harald persónulega geta tekið undir þetta.

Lúaleg er sú rógferð sem öfundsjúkir hafa lagt í undanfarnar vikur og mánuði gegn Haraldi og stjórn LH. Sannast þar hið margkveðna, að sjaldan launar kálfur ofeldi. Ásakanir þeirra halda ekki vatni. Enda kvöl öfundsjúkra oftast eingöngu sú að líða illa í eigin skinni. Þeir kunna ekki önnur ráð til svölunar en neyða aðra til þátttöku í vanlíðan sinni.

Haraldur gerði þau mistök í aðdraganda síðasta LH þings að beita ekki klókindum, frekar en endranær. Það er ekki hans háttur. Honum hefði verið í lófa lagið, og stjórninni, að nefna ekki staðarval fyrir Landsmót hestamanna á nafn fyrir þing. Halda áfram viðræðum við Skagfirðinga eftir þing og klára þær með þeirri niðurstöðu að stjórninni litist ekki á kostinn. Og taka síðan upp viðræður við Sprett. Það hefði verið sú stjórnkænska sem öfundsjúkir telja sjálfssagt „eðlileg“ vinnubrögð.

Haraldur vildi hins vegar að þingið fengi að reifa málið, það væri hin réttláta meðferð. Hann beitti sér heldur ekki gegn tillögu Skagfirðinga (eða hvaðan sem hún kom nú), sem komst ólöglega á dagskrá þingsins í boði Kjartans Ólafssonar, fundarstjóra, sem lét ekki telja atkvæði með og móti í opinni atkvæðagreiðslu. Tvo þriðju atkvæða þarf til að tillaga fái meðferð sem kemur inn á þing eftir að skilafrestur er útrunninn. Óhætt er að segja að hver klaufavillan hafi rekið aðra. Andstæðingar sitjandi stjórnar nýttu sér lagið og spiluðu á þá strengi sem svo margir þingfulltrúar dansa helst eftir, um leið og þeir blása tyggjókúlur. Hestamenn sviku formann sinn í atkvæðagreiðslu án þess að kynna sér aðdraganda og málsatvik til hlítar. Haraldur átti engan annan kost en segja af sér. Vantraustið var samþykkt og spilið tapað.

Stjórnin stóð með formanni sínum á þann hátt að hún sagði öll af sér. Það vakti þó furðu mína að enginn stjórnarmanna fór í pontu til að styðja við bakið á honum með ræðu og rökum. Ekki heldur Eyfirðingar, sem barðir voru með snákum í slag um Landsmót hestamanna á níunda áratugnum, af Skagfirðingum og þáverandi stjórn LH. Þeim hefði verið í lófa lagið að rifja upp að Skagfirðingar áttu kannski ekki skilið alla þá samúð sem þeir báðu um og fengu hjá þingheimi nú, í sögulegu ljósi, þótt sárindi þeirra hafi verið auðskilin, á sama hátt og sárindi Eyfirðinga áður.

Minn góði vinur Haraldur Þórarinsson er ekki klókindamaður í pólitík. Honum verður ekki hrósað fyrir það, ef þeir „mannkostir“ eiga hrós skilið. Hann hefur hins vegar unnið fyrir hestamannahreyfinguna af meiri einurð, hugsjón og heilindum en flestir aðrir sem ég hef kynnst í þau 30 ár sem ég hef fylgst með félagsmálum hestamanna. Um það geta fleiri vottað. Ég endurtek að lúaleg eru launin."

Jens Einarsson, ritstjóri.