þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lokamót Meistaradeildar næsta föstudag

3. apríl 2013 kl. 09:46

Lokamót Meistaradeildar næsta föstudag

„Á lokamóti Meistaradeildarinnar sem haldið verður föstudaginn 5 apríl 
verður keppt í slaktaumatölti og fljúgjandi skeiði.  Mótið hefst kl. 
18:30 og húsið opnar kl. 17.30.

Aðgangseyrir á mótið er 1.500 krónur fyrir þá sem eru ekki með ársmiða 
og er forsala aðgöngumiða í fullum gangi í verslunum Líflands, Top 
Reiter og Baldvini og Þorvaldi á Selfossi. Eins og áður sagði hefst 
mótið klukkan 18:30 og er um að gera að mæta snemma, tryggja sér sæti og 
fá sér eitthvað gott í gogginn hjá Lindu og Helga í veitingasölu 
Ölfushallarinnar.

Það má gera ráð fyrir harðri keppni í báðum greinum en reikna má með að 
margir af fljótustu vekringum landsins verði skráðir til leiks í 
skeiðinu og verður spennandi að sjá þá bruna í gegnum húsið. Í 
slaktaumatöltinu eru engar smá stjörnur að mæta til leiks og er ekki 
hægt að segja annað en að þetta sé allra sterkasta keppni í 
slaktaumatölti til þessa í deildinni ef ekki á landinu.  Ráslistar munu 
liggja fyrir á miðvikudagskvöld.

Spennan í stigakeppninni fyrir lokamót Meistaradeildarinnar er 
gífurleg.  Eftir veisluna sem við fengum að njóta í úti-skeiðgreinum 
deildarinnar, laugardaginn 23 mars s.l.,  opnaðist allt mótið bæði í 
liða- og einstaklingskeppninni.  Þar sem keppt verður í tveimur greinum 
á úrslitakvöldinu eru 24 stig í boði fyrir fyrsta sætið í báðum greinum 
og er því ljóst að einstaklingskeppnin verður gífurlega spennandi.  Ekki 
er spennan minni í liðakeppninni þar sem flest liðin hafa möguleika á 
sigri.

Í fyrra vann Artemisia Bertus einstaklingskeppnina með 48,5 stig og lið 
Topreiter/Ármóts vann liðakeppnina með 321 stig.

Staðan í einstaklingskeppni fyrir lokamótið í ár er eftirfarandi:

Sæti Knapi Stig
1 Guðmundur Björgvinsson 39,5
2 Viðar Ingólfsson  35
3 Sigurður V. Matthíasson 32
4 Árni Björn Pálsson 28,5
5 Þorvaldur Árni Þorvaldsson 27
6 Eyjólfur Þorsteinsson 26
7 Sigurður Sigurðarson 21
8 Ævar Örn Guðjónsson  20
9 Sigurbjörn Bárðarson 16
10 Jakob Svavar Sigurðsson 15,5

Og staðan í liðakeppninni er svona:

Sæti Lið  Stig
1 Top Reiter / Ármót 295
2 Lýsi 262
3 Hrímnir / Export hestar 224
4 Ganghestar / Málning 221
5 Spónn.is/Netvistun 219,5
6 Hestvit / Árbakki 219
7 Auðsholtshjáleiga 202,5
8 Gangmyllan 157

Á föstudaginn munu svo áhorfendur taka þátt í að kjósa "Fagmannlegasta 
knapann" en þann titil vann Artemisia Bertus í fyrra og einnig verður 
kosið um "Skemmtilegasta liðið" en þann titil vann lið Topreiter/Ármóts 
í fyrra.

Takið kvöldið frá strax og tryggið ykkur miða í tíma,“ segir í tilkynningu frá meistaradeild