miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lokakvöld KS-deildarinnar 2010 - videó-

8. apríl 2010 kl. 09:30

Lokakvöld KS-deildarinnar 2010 - videó-

Lokakvöld KS-deildarinnar var í gærkvöldi og var keppt í tveimur greinum, smala og skeiði. Eftir þrjú fyrstu mótin var Bjarni Jónasson í fyrsta sæti með nokkura stiga forskot en þar á eftir kom þéttur hópur og áttu margir knapar enn möguleika á sigri.

Í smalanum fóru allir knaparnir í gegn og þeir níu stigahæstu fóru aðra ferð þar sem skorið var úr um sigurvegarann. Í úrslitunum lenti Líney í níunda sæti þar sem hún féll af baki og fór ekki í gegn um endamarkið. Erlingur hafnaði í áttunda sæti, Ísólfur í því sjöunda, Sölvi í því sjötta og Þórarinn í því fimmta. Ragnar var með annan besta tímann en endaði fjórði vegna of margra refsistiga, Ólafur náði þriðja sætinu og Þorsteinn sem fór villulaust í gegn náði öðru sætinu.

Ótvíræður sigurvegari smalans var Magnús Bragi Magnússon en hann var tæpum fjórum sekúndum á undan næsta manni og einungis með eina fellda stiku.

Þar sem Bjarni náði ekki stigi í smalanum komst Ólafur upp að hlið honum og voru þeir hnífjafnir fyrir síðustu greinina og ekki langt í næstu menn.

Í skeiðinu voru farnir tveir sprettir í gegnum höllina. Keppnin var jöfn eins og venjan hefur verið í þessari mótaröð. Í níunda sæti með tímann 5,45 var Þorbjörn og áttundi með sama tíma var Þorsteinn. Sjöundi varð Elvar með 5,40 og sjötti Erlingur með 5,27. Sölvi og Mette urðu í fjórða og fimmta með tímann 5,25 og Þórarinn varð þriðji með tímann 5,13. Bjarni og Tryggvi voru með sama tímann 5,10 en þar sem hinn spretturinn var betri hjá Bjarna hafði hann sigurinn.

Eftir sigurinn í skeiðinu var ljóst að Bjarni hefði sigrað KS-deildina að þessu sinni og er hann vel að þeim sigri kominn. Með góðum árangri í skeiðinu skaust Þórarinn upp í annað sætið og Ólafur varð þriðji. Hnífjöfn í fjórða til sjötta sæti urðu Magnús, Elvar og Mette og Ísólfur var einungis einu stigi á eftir þeim í sjöunda sæti.

Þá er KS-deildinni lokið í ár. Þetta var æsispenndi og skemmtileg keppni allt til loka og óskum við Bjarna Jónassyni innilega til hamingju með sigurinn.

 

Einar Reynisson