miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lögbann á áramótabrennu?

31. desember 2009 kl. 17:23

Lögbann á áramótabrennu?

mbl.is skrifar um áramótabrennuna við Heimsenda: Hestamenn gagnrýna, að heimilað hafi verið að áramótabrenna verði við efstu húsin á svonefndum Heimsenda við  reiðstíginn sem liggur frá hesthúsasvæðinu að Elliðavatni. Sé brennan aðeins í 140 metra fjarlægð frá húsunum, sem flest séu með hestum í.  Segjast hestamenn íhuga að krefjast lögbanns á brennuna.

Á heimasíðu Hestamannafélagsins Andvara segir, að bæjarráð Kópavogs, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðiseftirlitið og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi veitt leyfi fyrir brennunni en enginn þessara opinberu aðila hafi beðið um umsögn Andvara áður en leyfið var veitt. Því hafi hestamenn ekki vitað af brennunni fyrr en byrjað var að hlaða hana á mánudag.

Formaður Andvara segist hafa haft samband við leyfisveitendur og beðið um að leyfið yrði afturkallað eða brennan færð lengra í burtu en við því er ekki orðið því  samkvæmt reglugerð er brennan ekki á hættusvæði eða of nálægt byggð.

Fram kemur á heimasíðu Andvara, að til skoðunar sé að  leita til sýslumanns og óska eftir lögbanni á að kveikt verði í þessari áramótabrennu. Sé það neyðarúrræði til að vernda hestana sem komnir séu í hús.

www.mbl.is