mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítil hrossasala eftir LM2012 í Reykjvík

12. júlí 2012 kl. 08:10

Sigurbjörn Bárðarson segir að hrossasalan eftir LM2012 sé mun minni en menn vonuðust eftir.

Landsmótið í Reykjavík var hápunktur sem margir hrossabændur höfðu beðið eftir, en salan varð mun minni en menn bjuggust við, segir Sigurbjörn Bárðarson, knapi og hrossabóndi.

Sala á hrossum eftir Landsmót í Reykjavík var mun minni en vonast hafði verið eftir. Þetta sagði Sigurbjörn Bárðarson, knapi og hrossabóndi á Oddhóli á Rangárvöllum, í samtali við morgunútvarp RÚV í morgun.

Sigurbjörn segir að margir hafi verið búnir að bíða eftir þessum hápunkti í tvö til þrjú ár, eða frá því að fella varð LM2010 niður vegna hrossapestarinnar. Fáir útlendingar hafi komið á LM2011 í fyrra en á fjórða þúsund nú. Haldin hafi verið vel undirbúin sölusýning á Landsmótinu í Reykjavík og áhuginn hafi verið mikill. Eftirfylgnina hafi hins vegar vantað og lítið orðið um viðskipti.

„Bændur sitja uppi með fjölda óseldra taminna hrossa, jafnvel tvo til þrjá árganga. Þetta er auðvitað ekkert annað en tap, einkum hjá þeim sem þurfa að kaupa tamningu og þjálfun á hrossin. Það seljast alltaf eitt og eitt topphross, en það eru ekki allir svo heppnir að eiga þau,“ segir Sigurbjörn.

„Staðan er alvarleg, greinin á undir högg að sækja. Við verðum að skera niður hross, þau eru of mörg. Það er kreppa í þeim löndum sem við höfum skipt mest við. Nú þurfum við að bretta upp ermar og snúa bökum saman. Það eru sóknarfæri, til dæmis í Bandaríkjunum, Rússlandi og Frakklandi. Þetta eru miklar hestaþjóðir þar sem mögulegt er að markaðssetja hestinn frekar.“

Sjálfur sagðist Sigurbjörn eiga á annað hundrað hrossa og hann þyrfti að fækka þeim eins og aðrir. En aðalatriðið í stöðunni nú væri að hrossabændur sameinuðust um aðgerðir.