fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítið um glaða keppnishesta

2. mars 2014 kl. 13:07

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.

Sigurborg Daðadóttir Yfirdýralæknir

Miklar breytingar hafa orðið á meðferð og aðbúnaði hrossa á undanförnum árum, bæði til hins betra og hins verra að sögn Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis. 

„Að jafnaði er hugsað betur um hross, aðbúnaður og atlæti er betra. Almennt er hugsað meira um fóðrun og hirðingu. Þá hefur aðstaða og hesthús gjörbreyst til batnaðar. Áður voru hestar bundnir á þrönga og stutta bása, sem er bannað í dag. Verið er að temja hesta á miklu betri hátt en áður var. Gefinn er meiri gaumur að atferli hestsins, hvað er honum eðlilegt og reynt að temja hann af fúsum og frjálsum vilja og laða þannig fram það besta í hestinum."

Á hinn bóginn telur Sigurborg halla á keppnishross, svo mikið að henni þykir orðið óþægilegt að sjá keppt á hestum. „Mér finnst grátlegt að fólk skuli klappa fyrir hestum, sem eru þvingaðir í fastmótaða stellingu, bara ef þeir geta farið nógu hátt upp með lappirnar. Oft á tíðum eru hestarnir „slitnir í sundur“, afturhlutinn fylgir ekki framhlutanum, hestum er gert ókleift að ganga inn undir sig. Þetta kallaði Dr. Gert Heuschman „kakkalakka“, þ.e. lappirnar hreifast ótt og títt, en yfirlína hestsins er stíf eins og skel, hesturinn verður eins og kakkalakki. Mér finnst ég örsjaldan sjá sáttan hest, með eyrun fram og fallega borið tagl, tölta frjálst og í gegnum sig í keppni."

Viðtal við Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni má nálgast í 2. tölublaði Eiðfaxa sem kemur út eftir helgi. Hægt er að panta áskrift í síma 511 6622 eða í gegnum tölvupóstfangið eidfaxi@eidfaxi.is.