miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lítið innlegg í umræðu um þröskulda.

26. desember 2010 kl. 20:20

Lítið innlegg í umræðu um þröskulda.

Umræða um þröskulda í kynbótadómum sem hefur verið all nokkur undanfarið snertir þrjú af áhugamálum mínum og langar mig að leggja orð í þennan belg...

Þetta varðar hestamennsku, meðferð talna og mælitækni.
Vafalaust má efast mikið um vit mitt á hestum en ég slepp við að opinbera fávisku mína í þeim efnum með því að snúa mér að tölunum. Dómarnir hafa ekki haft það markmið að skilja kjarnann frá hisminu, heldur að raða upp eftir getu. Í BLUPP-inu eru fengnir til lærðir menn sem raða hæfninni á svokallaða normalkúrfu í þeirri vissu að tölt, skeið, fet og réttleiki hagi sér með sama hætti og þekking grunnskólanema í ensku og stærðfræði. Allar mælingar falli að kenningum Gauss um dreifingu talna og eru fyrir því  góð og gild rök.   
Hvað gerist svo með þröskuldunum? Lítum á einfalt dæmi um hvernig tölt sem hefur 15% vægi í kynbótadóm virkar:

Kerfi    Hægt tölt    Tölt    Einkunn    15%    Breyting heildaeinkunnar
Nýja    7,5              8,0       8,0         1,20    
Gamla 7,5               8,0       8,0         1,20    0,00
Nýja    7,5               8,5       8,0         1,20    
Gamla  7,5              8,5        8,5         1,28    -0,08
Nýja    7,5               9,0        8,0         1,20    
Gamla  7,5              9,0        9,0         1,35    - 0,15
Nýja     8,0              9,0        8,5         1,28    
Gamla   8,0             9,0        9,0          1,35    -0,08
Nýja      8,5             9,0        9,0          1,35    
Gamla    8,5            9,0         9,0          1,35    0,00

Áfram er markmiðinu um röðun fullnægt en dreifingin er skekkt. Þröskuldarnir hafa ekki hróflað við miðlunginum og ekki heldur þeim efstu en draga góð hross niður nær miðjunni. Kúrfunni er lyft við miðjuna en lækkuð þar fyrir ofan. Ef eiginleikinn var normaldreifður þá er hann það ekki lengur ofan við meðaltalið. Ekki hefur verið hróflað við kúrfunni neðan við meðaltalið.
Það eru þröskuldar á tölt og stökk og því eru dreifingar þessara eiginleika skekktar en ekki dreifingar fyrir t.d. brokk eða vilja og geðslag. Með þröskuldum eykst því óbeint vægi þeirra gangtegunda sem ekki eru bundnir með þröskuldum ofan við meðaltal. Erfitt er að gera sér grein fyrir áhrifunum á einstök hross nema með talsverðum útreikningum. Hvers vegna að hafa hlutina einfalda ef hægt er að gera þá flókna?

Það hefur verið rætt og e.t.v. ákveðið að minnka áhrif þröskulda en þeir munu þó áfram hafa sömu virkni þó minni sé.

Dómar eiga ekki sjálfstætt líf. Þeir eru leiðbeining frá sérfræðingum til ræktenda. Leiðbeiningar þurfa að vera skiljanlegar, annars gagnast þær ekki. Með þröskuldum eru upplýsingar faldar og einkunnin sem birtist ekki í samræmi við leiðarann sem liggur þar að baki. Skilaboðin til ræktenda og áhugafólks eru því röng. Fávís áhugamaður um ræktun eins og ég get ekki treyst upplýsingunum sem dómarar senda frá sér. Einu sinni var sagt að upplýsingin geri manninn frjálsan.

Lítum aðeins á mælitækið. Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum það er að segja með  nákvæmninni +/-0,25. Kvarðinn nær frá 5,0 og upp í 10,0 svo uppgefin einkunn er með 5% nákvæmni.
Mælitækni er flókin og óvissa í mælingum liggur bæði í mælitækjum og aðferðum við mælingar. Þegar mæla skal t.d. lengd hlutar getum við notað málbandi eða skífmáli. Málbandið er með nákvæmni 1 mm en skífmálið með 0,1 mm. Ytri þættir hafa áhrif á lengdarmælinguna t.d. hitastig, aflestur og ótalmargt fleira. Hver mælir er kvarðaður og ástimpluð nákvæmni hans. Mælitæki kynbótadóma er maður sem metur með skilningarvitum sem hafa innifalda ónákvæmni við aðstæður sem hafa áhrif. Hver er nákvæmni dómsins? Ég ætla ekki í þá umræðu hér að öðru leiti en því að ræða áhrif þröskuldanna á mælinguna. Áður nefnd 5% ónákvæmni í mælingu fer í verstu tilvikum í 25% í dæmunum úr töflunni hér að ofan. Ég fór að leita í tölfræðinni að dæmum þar sem þessari aðferðafræði er beitt og fann engin. Allsstaðar er leitast við að auka áreiðanleikann. Í mælitækni myndi mælingin falla undir óbeina mælingu. Þessu má líkja við það að mæla ekna vegalengd í bíl út frá bensínnotkun. Það má leggja mat á vegalengdina út frá því hve margir lítrar eru farnir úr tanknum, en það er til miklu einfaldari mæling. Mæling á bensíneyðslu er góð til síns brúks en er ekki góður mælir á vegalengd.

Markmið þröskuldanna er að auka veg hægu gangtegundum. Það á að gera með því að gefa þeim vægi í einkunninni en ekki með því að auka flækjustig, minnka upplýsingar sem dómur gefur og auka á ónákvæmni. Töltið gæti t.d. farið niður í 10% og hæga töltið fengið 5% eða önnur hlutföll sem hestafræðingum þykir skynsamlegt.
 
Miklar breytingar hafa verið gerðar á vægi einkunna í tímans rás og þeim fjölgað. Fróðir menn um hross hafa vélað þar um og í flestu tekist vel. Þar fást fróðir hestamenn við verkefni sem þeir þekkja betur en aðrir. Rétt meðferð talna og mælinga eru mér hugleikin og það rennur mér til rifja þegar snúið er upp á aðferðir tölfræði og mælitækni eins og vel meinandi hestamenn hafa gert varðandi dómskalann.

Ég bið því ráðunaut hrossaræktar að bæta úr sem fyrst.  


Sigurður Guðni Sigurðsson
áhugamaður um talnameðferð