miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líst illa á blikuna

21. apríl 2010 kl. 11:25

Of seint að hlaupa af stað þegar öskufallið er byrjað

„Mér líst ekkert á þetta og hef lýst áhyggjum mínum,“ segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossa á Íslandi, þegar hún var spurð hvert væri hennar mat á stöðunni varðandi hrossahald, eldgos og öskufall. „Það er engin trygging fyrir því að þetta gos verði skammvinnt.

Sagan segir okkur að Eyjafjallagos geta varað vikum og mánuðum saman og öskufall úr því sömuleiðis. Líka að aska getur fallið um allt land, eftir því hvernig vindar blása. Það er því ekkert svæði öruggt. Ég hef brýnt fyrir fólki að undirbúa sig áður en skaðinn skeður. Við verðum að vera á undan öskufallinu og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að skepnunar éti öskuna. Það er of seint að fara af stað þegar aska er farin að falla. Það er ekki gott að mæða hrossin í rekstri í miðju öskufalli.“

Sigríður segir að varasamt geti verið að hýsa fylfullar hryssur. Þær verði að hafa gott rými og mjúkt undirlag. Betra sé að búa þeim góða aðstöðu utan dyra þar sem þær fái gott hey og hreint vatn, heldur en hýsa þær í of litlu rými.