miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lífið hjá hestamannfélögum: Hrossauppboð og uppskeruhátíðir

17. október 2011 kl. 12:33

Lífið hjá hestamannfélögum: Hrossauppboð og uppskeruhátíðir

Haustdagskrá hestamannafélaganna fer misjafnlega af stað. Sum hver halda úti metnaðarfullri dagskrá í haustlægðinni á meðan önnur hvíla sig. Hér eru nokkrar fréttir frá félögum vítt og breytt um landið:

Skemmtilegt hrossauppboð

Á heimasíðu Skugga segir frá velheppnuðu hrossauppboði félagsins sem fram fór í Faxaborg á föstudagskvöld. Töluvert margir gestir lögðu leið sína í Borgarnes þar sem tíu hross á aldrinum 3.-15. vetra voru boðin upp. Boðið var í öll hrossin en tvö hrossanna voru seld á staðnum. Eiðfaxi hefur einnig af því spurnir að fjögur til viðbótar hafi verið seld daginn eftir. Miðað við góða mætingu og líflega stemningu meðal gesta eru við slíkar uppákomur kærkomnar í rólegri hausttíðinni.

Skuggamenn stefna að því að endurtaka leikinn og halda sölusýningu ásamt uppboði í desember.

Líf í uppsveitum

Starf hestamannafélagsins Smára er einnig komið á ról. Árleg folaldasýning Tungnamanna fer fram í reiðhöll hestamannafélagsins laugardaginn 29. október og þá um kvöldið er fyrirhugað að hafa unghrossauppboð.

„Á uppboðinu verða folöld, unghross og tryppi á tamningaraldri. Meðal annars undan Arði frá Brautarholti, Þresti frá Hvammi, Þey frá Akranesi, Sædyn frá Múla, Hrana frá Hruna, Hróa frá Skeiðháholti ofl. Það eru Manni í Langholtskoti og Grímur í Auðsholti II sem eru forsvarsmenn þessa viðburðar, ætla þeir að bjóða upp á léttar veitingar á meðan birgðir endast og hvetja þeir alla til að koma og gera góð kaup í reiðhöllinni laugardagskvöldið 29 október kl. 20.30,“ segir á heimasíðu Smára.

Sunnudaginn 30. október verður reiðhöllin svo aftur fyllt af unghrossum því þá fer fram árleg folaldasýning Hrunamanna. Einnig ætla Smáramenn að halda sölusýningu 12. nóvember nk.  

Besta nefndin fær bikar

Aðalfundur Sörla verður haldinn fimmtudaginn 27. október kl. 20.00 á Sörlastöðum. Sörlafélagar eru hvattir til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðum.  Veittar verða viðurkenningar og nefndabikarinn afhentur nýrri nefnd, en hann er veittur fulltrúum þeirrar nefndar sem skarað hefur framúr á liðnu starfsári.

Uppskeruhátíðir í Mosfellsbæ og Húnavatnssýslu

Uppskeruhátíð Æskulýðsnefndar Harðar verður haldin í Harðarbóli 10. nóvember, en venja er að veita ungum félagsmönnum verðlaun fyrir glæstan árangur og framför. Óskar nefndin eftir tilnefningum til verðlaunanna, en þær eiga að berast á netfangið ragnhosp@dot.is fyrir 25. október.

Þá munu V-Húnvetningar koma saman og fagna liðnu ári þann 29. október nk á Uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtaka V-Húnavatnssýslu. Þar mun eitt bú hlotnast nafnbótin hrossaræktarbú ársins. Tilnefningar til viðurkenningarinnar má nálgast hér.

Sameiginlegt knapamerkjanámskeið

Skráning fer nú fram á knapamerkjanámskeið sem æskulýðsdeildir Andvara og Gusts standa saman að. Námskeiðin hefjast næstu mánaðarmót með bóklegum tímum, en verklegir tímar byrja í janúar. Kennari námskeiðsins er Vilfríður Fannberg Sæþórsdóttir. Skráning fer fram á heimasíðu Gusts.

Ábendingar um fréttaefni og athugasemdir berist á netfangið frettir@eidfaxi.is.