miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Líf í Söðulsholti

16. febrúar 2011 kl. 12:32

Líf í Söðulsholti

Hestamiðstöðin Söðulsholt hefur skotið upp kollinum öðru hverju undanfarið þegar staðið er fyrir námskeiðum og sýningum. Halldór Sigurkarlsson og Iðunn Silja Svansdóttir starfa við hestamiðstöðina. Þar stunda þau tamningar og þjálfun auk þess að halda utan um starfsemi reiðhallarinnar sem byggð var árið 2006.

„Við höfum verið hér í fjögur ár, eða síðan reiðhöllin var byggð. Núna erum með um 35 hross á húsi, við þjálfum bæði okkar hross og annarra svo það er ansi mikið um að vera,“ segir Halldór þegar Eiðfaxi sló á þráðinn vestur á Snæfellsnes til að forvitnast um starfsemina. „Auk þess reynum við að hafa lifandi dagskrá í reiðhöllinni.“

Hann nefnir sem dæmi folaldasýningu sem haldin var síðla janúarmánaðar. Þar voru um 40 folöld sýnd og dæmd.  Þá hafi ákveðin hefð hafi skapast fyrir því að tamningamaðurinn og reiðkennarinn Magnús Lárusson kenni á helgarnámskeiði einu sinni á vetri og var það haldið nú síðustu helgi.  „Þetta er fjórða árið í röð sem hann kemur og varð fljótt fullskipað á námskeiðið. Það var vel heppnað og skemmtilegt,“ segir Halldór. Hann segir alls kyns fólk sæki á námskeið í Söðulsholti, allt frá byrjendum í hestamennsku upp í atvinnumenn. „Okkur Iðunni þykir einmitt gott að fá að fylgjast með námskeiðunum og sitjum þau stundum sjálf enda eru þau bæði góð upprifjun og lærdómur í hvert sinn,“ segir Halldór.

Nú býður hestamiðstöðin Söðulsholt upp á þriggja helga raðnámskeið. Helgarnar 4. – 6., 12. – 13. og 26. – 27. mars verður tamningarmeistarinn Benedikt Líndal með námskeið sem ætlað er meira vönum knöpum og aðaláherslur verða rétt samskipti, hlustun, skilningur, samþykki. Farið verður í allar gangtegundir og fjölbreytni í vinnubrögðum. Hver helgi kostar 20.000 kr. og innifalið í því er hádegismatur, kaffi og húsaskjól fyrir hestinn meðan á námskeiðinu stendur. Nánari upplýsingar og skráning má finna á heimasíðu Söðulsholts.