miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Liðsfélagi og vinur

4. mars 2014 kl. 10:39

Sigríður María á 2. tölublaði Eiðfaxa.

 

Annað tölublað Eiðfaxa er nú aðgengilegt fyrir áskrifendur á netinu hér.

Konur eru áberandi í blaðinu að þessu sinni. Tamningakonan og hrossaræktandinn Olil Amble situr fyrir svörum, yfirdýralæknirinn Sigurborg Daðadóttir er í viðtali og Súsanna Ólafsdóttir formaður FT ritar pistil.

Forsíðuna prýðir hin tvítuga Sigríður María Egilsdóttir sem er eftirtektarverð fyrir margra hluta sakir. Hún lék eitt af lykilhlutverkunum í stórmyndinni Hross í oss. Hún þykir ein efnilegasta framsögukona landsins og hefur vakið heimsathygli sem slík. Hún er skýr og skelegg og kallar ekki allt ömmu sína. Eiðfaxi settist niður með henni og ræddi hestamennsku frá mörgum hliðum. Hér er brot úr viðtalinu:

Sigríður María segir hestamennsku sína af öllum toga. „Ég hef stundað hestamennsku í frístundum. Ég nota útreiðatúra til að hreinsa hugann og stíga út úr amstri dagsins. Svo hef ég líka mikið keppnisskap. Mér finnst eitthvað töfrandi við uppbyggingu í þjálfun, að sjá miklar framfarir á hestinum og reiðmennsku minni og ná markmiðum. Það er ofboðslega gaman.“

Hún segir muninn á keppnisreiðmennsku og frístundarútreiðum byggja á misjöfnu sambandi við hestinn. „Ég held að maður skilgreini hestinn sem liðsfélaga þegar maður undirbýr sig fyrir keppni. Í þjálfuninni felst að finna mörkin, ganga aldrei of langt en reyna til hins ýtrasta að bæta sig og hestinn. Til þess að geta það þarf að vera gott og sterkt samband. Mér finnst þetta samband æðislegt. Á útreiðum er maður ekki í eins krefjandi samstarfi. Þá skilgreinir maður hestinn meira sem vin sem maður nýtur lífsins með.“

Hægt er að panta áskrift í síma 511 6622 eða í gegnum tölvupóstfangið eidfaxi@eidfaxi.is