laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Liðin í Meistaradeildinni

27. janúar 2011 kl. 10:43

Sólon Morthens er nýr knapi í Meistaradeildinni. Hann keppir í fjórgangi á hinum sérstæða Glæsi frá Feti.

Fjórgangur í kvöld


Fyrsta mót Meistaradeildar í hestaíþróttum fer fram í kvöld og verður keppt í fjórgangi. Liðin sem keppa eru eftirfarandi:

Auðsholtshjáleiga
Þórdís Erla Gunnarsdóttir, liðsstjóri, er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hún starfar við tamningar á Grænhóli. Þórdís Erla hefur verið viðloðandi keppni frá blautu barnsbeini en hefur jafnframt verið að koma sterk inn í kynbótasýningum síðustu ár.

Bylgja Gauksdóttir er tamningamaður og þjálfari frá Hólaskóla. Hún hefur starfað undanfarin ár við tamningar á Grænhóli. Bylgja hefur gert garðinn frægan í keppni á undanförnum árum og hefur jafnframt verið að gera góða hluti í kynbótasýningum.

Hekla Katharína var valin efnilegasti knapinn 2010. Hún er Landsmótssigurvegari í yngri flokkum og hefur auk þess unnið fjölmarga Íslandsmeistaratitla. Hekla er nemandi á hestabraut Hólaskóla en er nú í vetur í verknámi á hrossaræktarbúinu Feti.
Varaknapi liðsins er Edda Rún Ragnarsdóttir.  Heimasíða búsins er horseexport.isÁrbakki / Norður-Götur


Hinrik Bragason, liðsstjóri, er tamningamaður og reiðkennari á Árbakka. Hinrik er margfaldur heims-, Íslands- og Norðurlandameistari. Hann hefur einnig verið að gera góða hluti við sýningu kynbótahrossa undanfarin ár.


Hulda Gústafsdóttir er tamningamaður og reiðkennari á Árbakka. Samhliða rekstri Árbakka hesta reka þau Hinrik útflutningsfyrirtækið Hestvit ehf. Hulda er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari og hefur jafnframt verið í íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótum.


Teitur Árnason er ungmenni og kemur úr hestamannafélaginu Fáki. Teitur er margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum en er jafnframt Íslandsmeistari í 150m skeiði 2008 - 2009. Hann hefur verið í íslenska landsliðinu bæði á Norðurlanda- og Heimsmeistaramótum.


Sveinn Ragnarsson, varaknapi, rekur fyrirtækið Bílaklæðningar ehf. í Kópavogi. Hestamennska er hans áhugamál en hann temur og þjálfar sín hross sjálfur. Hann hefur verið í íslenska landsliðinu á heimsmeistaramóti og hefur jafnframt hampað Íslandsmeistaratitlum.

Hrímnir
Viðar Ingólfsson, liðsstjóri, stundar tamningar og þjálfun að Kvíarhóli, Ölfusi. Hann er margfaldur Íslandsmeistari, Landsmótssigurvegari í tölti ásamt mörgum öðrum fræknum sigrum. Hann var íþróttaknapi ársins 2008 og gæðingaknapi ársins 2007. Viðar sigraði Meistaradeildina 2007 og 2008.


Snorri Dal er tamningamaður og reiðkennari í Hafnarfirði. Hann sigraði B-flokk gæðinga á Landsmótinu 2006 á Vindheimamelum. Snorri var í íslenska landsliðinu á síðasta Heimsmeistaramóti en auk þess hefur hann unnið fjölda Íslandsmeistaratitla.


Vignir Siggeirsson rekur tamningastöð að Hemlu, Vestur-Landeyjum, ásamt eiginkonu sinni. Hann varð heimsmeistari í tölti 1997 á Þyrli frá Vatnsleysu og hefur verið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu á Heimsmeistaramótum.


Arnar Bjarki Sigurðarson er ungmenni og kemur úr hestamannafélaginu Sleipni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið að gera góða hluti í yngri flokkum. Hann er sigurvegari Meistaradeildar UMFÍ, Norðurlandameistari og Íslandsmeistari.

Lýsi
Sigurður Sigurðarson, liðsstjóri, rekur tamningastöð á Þjóðólfshaga ásamt eiginkonu sinni. Sigurður er fyrsti sigurvegari Meistaradeildarinnar en hann sigraði hana árið 2001. Hann hefur setið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu, er heimsmeistari, margfaldur Íslandsmeistari, heimsmethafi í 100m skeiði og mætti lengi telja áfram.

Sigurbjörn Bárðarson er sá knapi sem hefur oftast sigrað Meistaradeildina eða þrisvar sinnum, árin 2002, 2009 og 2010. Hann hefur jafnframt oftast sigrað einstaka grein í deildinni eða 14 sinnum. Sigurbjörn hefur unnið flesta titla sem hægt er að vinna í hestaíþróttum ásamt því að vera eini hestamaðurinn sem hefur hampað titlinum íþróttamaður ársins.

Sigurður Óli Kristinsson stundar tamningar og þjálfun að Fákshólum, Ásahrepp. Sigurður hefur átt góðu gengi að fagna í keppni á undanförnum árum og riðið til úrslita á landsmótum og Íslandsmótum ásamt því að vera að gera góða hluti í kynbótasýningum.

Olil Amble rekur alhliða hestamiðstöð undir nafninu Gangmyllan að Syðri-Gegnishólum í Flóahrepp ásamt Bergi Jónssyni. Olil hefur setið í íslenska landsliðinu, er heimsmeistari, margfaldur Íslandsmeistari ásamt mörgum öðrum glæstum sigrum.

Málning / Ganghestar
Sigurður Vignir Matthíasson, liðsstjóri, rekur alhliða hestamiðstöð, Ganghesta, á Fákssvæðinu ásamt eiginkonu sinni. Sigurður hefur verið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu bæði á heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum. Hann er margfaldur heims- og Íslandsmeistari, Landsmótssigurvegari og mætti lengi telja áfram.

Anna Valdimarsdóttir rekur alhliða hestamiðstöð á Fákssvæðinu ásamt eiginmanni sínum en þau voru búsett í Þýskalandi um árabil en eru nú komin heim aftur. Anna er þýskur meistari og hefur verið í íslenska landsliðinu bæði á heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum.

John Kristinn Sigurjónsson er tamningamaður FT og starfar við tamningar að Ármóti. John hefur verið að gera góða hluti í keppni og kynbótasýningum á undanförnum árum.

Valdimar Bergstað er áhugaknapi úr hestamannafélaginu Fáki. Hann hefur verið í íslenska landsliðinu á heimsmeistara- og Norðurlandamótum. Hann er margfaldur Íslandsmeistari, heimsmeistari, landsmótssigurvegari ásamt mörgum öðrum stórum sigrum.

Spónn.is
Ævar Örn Guðjónsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann rekur tamningastöð á félagssvæði Andvara. Á undanförnum árum hefur hann náð glæstum árangri á keppnisbrautinni sem og á kynbótabrautinni.

Elvar Þormarsson stundar tamningar og þjálfun á Hvolsvelli. Hann stundar hrossarækt ásamt fjölskyldu sinni á Strandarhjáleigu og hlutu þau titilinn ræktunarbú ársins 2009. Hann varð Íslandsmeistari í fjórgangi s.l. sumar og hefur verið að gera góða hluti í keppni og sýningum á undanförnum árum.

Sigursteinn Sumarliðason stundar tamningu og þjálfun að Forsæti í Vestur-Landeyjum. Hann var kjörinn gæðingaknapi ársins 2010, varð heimsmeistari í gæðingaskeiði 2007 og hefur verið að gera góða hluti á keppnisvellinum undanfarin ár.

Sólon Morthens er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann vakti mikla athygli á keppnisvellinum síðast liðið ár og hefur meðal annars hlotið reiðmennskuverðlaun FT-Norður.

Top Reiter / Ármót / 66°North
Guðmundur Björgvinsson, liðsstjóri, er tamningamaður FT. Hann rekur tamningastöð á Ingólfshvoli, Ölfusi. Guðmundur er Landsmótssigurvegari, hefur setið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu og hefur verið að gera góða hluti í kynbótasýningum.

Jakob Sigurðsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann rekur tamningastöð að Steinsholti, Hvalfjarðarsveit. Hann hlaut knapaverðlaun FT á LM2008, Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2010 og hefur jafnframt verið að gera góða hluti jafnt í kynbótasýningum sem og á keppnisvellinum á undanförnum árum.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann stundar tamningu og þjálfun að Hvoli í Ölfusi. Þorvaldur er margfaldur Íslandsmeistari, hefur átt sæti í íslenska landsliðinu og verið í toppbaráttunni bæði í gæðinga- og íþróttakeppni á undanförnum árum.


Bergur Jónsson er aldursforsetinn í liðinu. Hann er tamningamaður og hrossarætarmaður á Syðri-Gegnishólum/Ketilsstöðum og hlaut verðlaunin Hrossaræktarmaður ársins 2010 ásamt sambýliskonu sinni Olil Amble. Hann hefur verið áberandi í kynbótasýningum undanfarin ár við góðan árangur og var tilnefndur sem kynbótaknapi ársins 2010.