mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LH skorar á ráðherra

14. maí 2014 kl. 16:15

Stangamél með einjárnungs tunguboga.

Vilja tunguboga burt.

Stjórn LH sendi á dögunum bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem hún skorar á ráðherra að banna nú þegar notkun allra tunguboga með vogarafli í keppni og kynbótasýningum.

Tilkynning þess efnis birtist á vefsíðu Landssambandsins með bréfinu sem hljóðar svo:

Ágæti ráðherra,

Stjórn Landsambands hestamannafélaga (LH), skorar á ráðherra að setja nú þegar reglugerð sem bannar notkun allra tunguboga með vogarafli þannig að þessi búnaður verði ekki notaður í keppni og kynbótasýningum á meðan frekari rannsóknir fara fram á honum.

LH telur með öllu óásættanlegt að þessi búnaður sé í notkun hér á landi og innan FEIF í kjölfar niðurstöðu rannsókna Dr. Sigríðar Björnsdóttir og tölfræðilegrar úttektar Þorvaldar Kristjánssonar kynbótadómara og kennara við LbhÍ.  Þá staðfesta gögn úr nýlegri rannsókn í Svíþjóð á þessum sama búnaði í keppni og sýningum á íslenskum hestum samskonar áverka.

Í lögum og reglum LH og nýjum dýraverndarlögum er skýrt tekið fram að hesturinn eigi alltaf að njóta vafans og velferð hans eigi að vera höfð í fyrirrúmi. Ekki megi nota neinn þann búnað í keppni og sýningum sem sé í andstöðu við þau markmið.  Með hliðsjón af því og með vísan til almennra dýraverndarsjónarmiða telur LH að ráðherra sé skylt að banna þennan búnað þar til sýnt verður fram á hið gagnstæða við notkun hans, þ.e. að hann sé hestvænn og samræmist hugmyndum okkar um góða meðferð hesta í keppni og sýningum.

Virðingarfyllst,

Haraldur Þórarinsson
formaður Landssambands hestamannafélaga.

Afrit bréfsins fór einnig á Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og yfirdýralækni Sigurborgu Daðadóttur.

Einnig hefur stjórn LH sent bréf til FEIF með tillögu um að banna tunguboga.

Er verið að hjálpa hrossum með skapbresti?

Hátt í 60 manns voru mætt á fund um velferðamál hestamennskunnar, sem LH boðaði til í reiðhöll Sleipnis miðvikudagskvöldið 30. apríl. Þar fóru Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma og Þorvaldur Kristjánsson lektor og kynbótadómari yfir ný dýraverndarlög og niðurstöður heilbrigðisskoðana á keppnis- og kynbótahestum, Klár í keppni. Líflegar umræður sköpuðust að loknum erinda frummælenda og sýndist sitt hverjum.

Fundarmönnum gafst kostur á að varpa fram spurningum og leggja orð í belg og lýstu allnokkrir skoðunum sínum á málinu. Á meðan sumir styðja ekki boð og bönn og kröfðust enn frekari rannsókna, fögnuðu aðrir niðurstöðunum og vildu sjá beislabúnaðann bannaðan strax.

Haraldur Þórarinsson formaður LH sagði sína þá persónulegu skoðun vera þá að banna ætti þennan búnað eins og skot, sérstaklega á kynbótasýningum. Samkvæmt reglum um kynbótasýningar ætti að nota eins lítinn búnað og hægt væri en með notkun á slíkum beislabúnaði væri verið að hjálpa hrossum með skapbresti upp að hlið gæðings.

Sjá einnig: Togast á um tunguboga