laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LH í viðræður við Fák um LM2012

30. desember 2009 kl. 14:38

Mikil vonbrigði segir Ómar Diðriksson

Stjórn Landssambands hestamannafélaga hefur ákveðið að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Fák í Reykjavík um að halda Landsmót 2012 á svæði Fáks í Víðidal. Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að ekki sé um endanlega ákvörðun að ræða. Samkvæmt reglugerð sé skylt að ræða við þau félög sem til greina komi áður en endanlega sé gengið frá samningi.

„ Við viljum athuga hvort hugsanlega séu meiri sóknarfæri til að mynda í markaðssetningu íslenska hestsins með því að fara inn í þéttbýlið. Spurningin er hvort við getum gert eitthvað nýtt á þessu svæði sem við getum ekki gert úti á landi. Það eru ýmsar hugmyndir á lofti varðandi nýjungar,“ segir Haraldur í viðtalinu.

Ómar Diðriksson, formaður hestamannafélagsins Geysis og stjórnarmaður í Rangárhöllinni ehf., segir að þetta séu vondar fréttir fyrir Rangárhöllina ehf. og Rangárbakka ehf., sem eru eignarhaldsfélög um Rangárhöllina, sem reist var á síðasta ári, og Gaddstaðaflatir, Landsmótssvæðið við Hellu. Bæði félögin séu allskuldsett eftir miklar framkvæmdir fyrir síðasta Landsmót 2008. Það hafi verið von manna á Suðurlandi að sátt væri komin á um tvo Landsmótsstaði, einn fyrir norðan og einn fyrir sunnan. Það sé brostin von. „Það er komin upp ný staða sem setur þessi félög í vanda. Ég vil ekki tjá mig um þetta frekar í bili, en stjórnir félaganna munu væntanlega senda frá sér fréttatilkynningu fljótlega,“ segir Ómar Diðriksson.