laugardagur, 15. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

LH 60 ára í dag

18. desember 2009 kl. 20:11

LH 60 ára í dag

Það á afmæli í dag... Já, Landssamband hestamannafélaga er 60 ára í dag. Af því tilefni var haldin afmælishátíð í Iðnó en í því húsi var sambandið einmitt stofnað þann 18.desember árið 1949, nánar til tekið í Baðstofu Iðnaðarmanna.

Hátíðahöldin hófust á því að ungmenni úr afrekshóp LH kom ríðandi að Iðnó í fallegum hóp og tók á móti gestunum. Veðrið lék við alla og ungmennin tóku sig vel út á hestunum.

Þegar inn var komið hófst formleg dagskrá afmælisins. Friðrik Pálsson var veislustjóri og  fórst honum það vel úr hendi.

Á dagskrá voru þónokkur erindi úr ýmsum áttum. Kári Arnórsson reið á vaðið og flutti ávarp úr sögu LH og tilkynnti að fyrir lægi að koma sögu sambandsins í sextíu ár í bundið mál og gefa út á næsta ári. Kári er vel að sér í þessum málaflokki og gaman að heyra hann fræða gesti um drögin að stofnun LH og hvernig þróunin hafi verið í starfi þess síðustu sextíu árin.

Þorvaldur Kristjánsson kynbótadómari og doktorsnemi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri fjallaði um íslenska hestinn og vísindasamfélagið. Hann benti á hversu frábært verkfæri WorldFengur væri fyrir hestamenn og ræktendur og að trúlega væri þetta einstakur gagnabanki á heimsvísu. Þorvaldur kynnti einnig nokkur spennandi rannsóknarverkefni sem eru í gangi þessi misserin.

Ásta Möller var einnig á mælendaskrá og kynnti skýrsluna: Markaðssetning íslenska hestsins erlendis. Margar góðar tillögur eru settar fram í skýrslunni og ennfremur er hún full af staðreyndum og nytsamlegum tölum um hestamennskuna um allan heim.

Trausti Þór Guðmundsson hljóp í skarðið fyrir Pétur Behrens, sem því miður átti ekki heimangengt og flutti skemmtilegt erindi um tamningar og reiðlist og fléttaði það saman við sögu LH. Pétur minntist gamalla snillinga, hesta og manna og minntist sérstaklega á þátt þeirra Rósmarie Þorleifsdóttur í Vestra-Geldingaholti og Ragnheiðar Sigurgrímsdóttur sem báðar hlutu á sínum tíma reiðkennaramenntun erlendis og voru frumkvöðlar í reiðkennslufræðum hér heima í framhaldi af því. Erindi Péturs var skemmtilegt og áhugavert, myndskreytt með viðeigandi myndum, gömlum og nýjum og flutti Trausti Þór það mjög vel.

Hjörný Snorradóttir er í meistaranámi við HÍ í Stjórnun og stefnumótun. Hún hefur verið að vinna að geysimiklu verkefni í námi sínu en það snýst um stefnumótun landsmótanna. Hún hefur lagt kannanir fyrir erlenda og innlenda gesti liðinna landsmóta, spurt spurninga um hvað megi betur fara og hvað sé gott. Þetta er verkefni sem nýtist framkvæmdaaðilum landsmótanna vel við að skilja þarfir gesta og knapa í hvívetna og er LH sannarlega hvatt til að nýta sér niðurstöður verkefnisins til hins ýtrasta.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra fékk stutt leyfi frá þingstörfum til að koma og óska hestamönnum til lukku með daginn og undirstrikaði gott starf íþróttahreyfingarinnar í hestamennskunni og lagð áherslu á að greinin væri í senn, íþrótt, menning og lífsstíll.

Benedikt Erlingsson fjallaði um þátt hestsins í listum og menningu og að hann mætti sannarlega vera meiri. Hann kynnti fyrir gestum handrit að nýrri kvikmynd, þar sem hestar leika stór hlutverk og verulega spennandi verður að sjá. Hann lauk sínu erindi með frumsömdu lagi.

Gunnar Eyjólfsson leikari flutti ljóðið Fákar eftir Einar Benediktsson. Það var sannarlega vel flutt hjá honum, enda maður með reynslu þar á ferðinni. Dísella Lárusdóttir söng nokkur lög og endaði á Heims um ból og bað alla að taka undir. Hátíðarstemning hjá hestamönnum.

Í byrjun hátíðar sté Ólafur Rafnsson í pontu og óskaði hreyfingu hestamanna til hamingju með daginn. Hann afhenti síðan þeim Rósmarie Þorleifsdóttur og Kára Arnórssyni gullmerki ÍSÍ fyrir óeigingjarnt og gott starfsframlag sitt að hestamennskunni.
Hátíðin var skemmtileg. Erindin forvitnileg og lærdómsrík og hestamenn áttu góða stund saman í Iðnó í kvöld.

Innilega til hamingju með daginn LH!