sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Léttir heiðrar hugsjónamann

12. mars 2012 kl. 23:46

Léttir heiðrar hugsjónamann

Matthías Ólafur Gestsson sæmdur gullmerki Léttis við hátíðlega athöfn við verðlaunaafhendingu á KEA-mótaröðinni í Top Reiter höllinni fimmtudaginn 8. mars sl. Gullmerkið hlýtur hann fyrir framtak sitt til hestamannafélagsins:

"Matthías er fæddur á Siglufirði á þjóðhátíðardegi Frakka þann 14. júlí 1937. Þegar hann var ungur að árum var hann skíðastökkvari og ætlaði sér án efa langt í þeirri íþrótt. En allt er breytingum háð og skíðastökkið var lagt á hilluna. Hestamennskar var það næsta sem heillaði Matthías og hestarnir hafa verið hans líf og yndi ætíð síðan.
 
Hann hellti sér út í hestamennsku af fullum krafti, hann byggði sér hesthús í Breiðholtshverfinu og fór að viða að sér hestum. Hann var vandlátur á hestavalið og átti hann marga góða hesta sem sómi var af. En hann lét ekki staðar numið við það að eiga hesta, hús og ríða út á góðviðrisdögum.
 
Hann hefur alla tíð haft mikinn áhuga á ljósmyndun og þá sérstaklega hafði hann áhuga á því að mynda hesta. Hann fór að mynda fyrir Hestamannafélagið Létti mót og aðrar uppákomur í kringum 1968 og á hann sennilega eitt það stærsta ljósmynda og kvikmyndasafn af hestum hér á landi. Hann var mikill félagsmálamaður og gekk í Létti í kringum 1970. (áður var ritað að Matthías hefði hannað búninginn í þeirri mynd sem hann er og að knapinn þurfti að sanna þig sem reiðmaður áður en hann fékk jakkann en það er rangt. Og beðist er velvirðingar á þessum mistökum).
 
Hann lét strax til sín taka þar og var hestaíþróttamennska honum mjög svo hugleikin. Hann kynnti sér hestaíþróttir sem voru þá í þróun bæði hér innanlands og utan og tók þátt í því að móta lög og reglur, Matthías er einn af fyrstu hestaíþróttadómurum landsins. Hann stofnaði svo ásamt fleirum Hestaíþróttadeild Léttis árið 1979 og var fyrsti formaður hennar. Íþróttadeild Léttis var ein af fyrstu íþróttadeildum hestamannafélaga á landinu.
 
Hann var kraftmikill og röskur, vildi láta hlutina ganga. Hann og Herbert Ólason létu gera 200m hringvöll í Breiðholtshverfi sem þeir kostuðu sjálfir. Sá hringvöllur er enn til og hefur verið mikið notaður í gegnum tíðna. Hann ásamt öðrum góðum mönnum héldu þar íþróttamót og var hann oftast mótsstjóri og/eða dómari. Uppi á loftinu í hesthúsi sínu innréttaði Matthías aðstöðu sem notuð var mikið til fundahalda og kvikmyndasýninga. Var þessi aðstaða kölluð H-loftið.
 
Börn, unglingar og fullorðnir fóru að stunda hestamennsku á allt annan hátt en áður hafði verið. Tvisvar á ári var öllum félögum í Íþróttadeildinni boðið á H-loftið og voru þar bornar veitingar á kostnað Matthíasar.
 
Íþróttaiðkunin efldist mikið á þessum árum uppúr 1980 og á þessi góði maður mikinn heiður skilið fyrir það starf sem hann vann í þágu hestaíþrótta.
 
Matthías hefur alla tíð verið mikill hugsjónarmaður hestamennskunni til hana og vann hann mikið frumkvöðlastarf í þágu hestamennsku.
Fyrir framtak sitt til félagsmála hlýtur Matthías Ólafur Gestsson, gullmerki Hestamannafélagsins Léttis."