sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lét ótamin tryppi leggjast-

2. febrúar 2012 kl. 09:50

Lét ótamin tryppi leggjast-

Rúmlega 200 manns sóttu sýnikennslu Jóhanns Skúlasonar og Iben Andersen sem FT-Norður stóð fyrir í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki s.l. laugardagskvöld. Góður rómur var gerður að viðburðinum.

 
Jóhann fór yfir áherslur og markmið í töltþjálfun og fékk lánaðan gráa gæðinginn Dal frá Háleggsstöðum til sýnikennslunnar. Hann lagði áherslu á að hafa hestinn léttan á tauminn, sýndi hvernig unnt er að stjórna reisingu og móta þann höfuðburð sem hann er hvað þekktastur fyrir. „Hann er óhræddur við að ríða hestum í lágu formi á tölti,“ segir Þórarinn Eymundsson, tamningameistari og reiðkennari, sem meðal annarra hafði veg og vanda af skipulagninu sýnikennslunnar.
 
Iben Andersen hefur farið víða og kynnt sér ýmsar leiðir í frumtamningum. Margt af því sem hún sýndi var keimlíkt þeim aðferðum sem eru kenndar eða hafa verið ástundaðar við hestafræðideildina á Hólum, sem miða að því að umhverfisvenja tryppið, gera það óttalaust gangvart áreiti af ýmsu tagi og fá það þannig til að treysta tamningamanni sínum. Eitt atriði höfðu þó fáir séð áður. „Iben lagði tryppin niður með því að binda upp einn fót, sem þó var gert þannig að unnt var að leysa eða létta á með skjótum hætti. Þegar hesturinn leitaði niður slaknaði á bandinu og eftir nokkrar endurtekningar lagðist hesturinn alveg. Þar lét Iben fara vel um hann, bankaði í hófa og strauk honum öllum.“
 
Iben vann með þrjú tryppi, tvö hafði hún undirbúið í nokkra daga en eitt þeirra hafði hún lítið meðhöndlað. „Í hreinskilni sagt þá varð mér ekki um sel um tíma því hestarnir streittust mjög á móti, urðu móðir, þreyttir og sýndust loks nauðbeygðir til að leggjast niður, einkum sá sem var minnst undirbúinn. Það verður þó að segjast eins og er að annar svipur var á tryppunum eftir að Iben hafði meðhöndlað þau og sjá mátti meira traust og virðingu fyrir manninum. Hún tók það fram að þessa leið noti hún aðeins við mjög erfið eða spennt hross og vandamála tilfelli. Augljóst var að Iben hefur tamið mikinn fjölda hrossa, hún var mjög öguð í vinnubrögðum og gekk hreint til verks,“ segir Þórarinn að lokum.
 
Iben fór á bak öllum tryppunum og reið um í hringgerði á þeim tveimur sem hún hafði unnið með áður. Að eigin sögn er hún að þróa aðferð sína og vill innan árs geta lagt hest niður á sama hátt og hún sýndi í Svaðastaðahöllinni, en þá án þess að nota band og láta tamningaferlið einnig taka lengri tíma.