miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lena Zielinski best í fjórgangi

Jens Einarsson
12. febrúar 2010 kl. 10:07

Stangir orðnar staðalbúnaður í Meistaradeild

Hin danska Lena Zielinski skákaði keppinautum sínum í spennandi úrslitakeppni í fjórgangi í Meistaradeild VÍS í gærkvöldi. Lena keppti á hryssunni Golu frá Þjórsárbakka, sem er undan Andvara frá Ey og Eldingu frá Hóli, Hrynjandadóttir frá Hrepphólum.

Lena var efst eftir forkeppnina en mjög mjótt var á munun á milli hennar og Huldu Gústafsdóttur á Kjuða frá Kirkjuferjuhjáleigu. Í úrslitakeppninni blönduðu fleiri sér í slaginn og skiptust á að leiða eftir hvert riðið atriði. Sigurður Sigurðarson á Loka frá Selfossi veitti þeim stallsystrum harða keppni og úrslitin urðu þau að Lena varð efst, Hulda í öðru sæti og Sigurður í því þriðja.

Í heildina var reiðmennskan á mótinu þokkaleg, sem og form hestanna. Hinn knappi völlur innanhúss setur ævinlega svip sinn á framgöngu hestanna í Meistardeildinni, taumhald og ábendingar knapanna. Mjög fáir hestar eru svo liðugir að þeir geti gengið frjálsir og slakir við þessar aðstæður. Það hjálpar heldur ekki til að fæst hross eru komin í topp form á þessum árstíma. Inn á milli mátti þó sjá góða takta.

Athygli vakti að langflestir knapanna riður við stangir, þar af margir við svokallaðan einjárnung með tunguboga. Líklega voru aðeins tveir sem riðu við hringamél og aðeins einn í A úrslitum. Þetta vekur að sjálfssögðu upp spurningar um á hvaða leið menn eru í reiðmennskunni. Hestur riðinn á hringamélum á oftast mun auðveldara með að sveigja sig og því má færa rök fyrir því að þau henti betur á velli þar sem beygjur eru þröngar. Stangir og krossmúll er harður beislabúnaður og spurning hvort menn noti hann á ósanngjarnan hátt. En alltaf er það þó taumhendin sem ræður hinni endanlegu framsetningu. Mjúk hendi, fallegri reiðmennska.

Nánari úrslit má finna á www.meistaradeildvis.is