mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Leit hafin að ungum stjörnum

Jens Einarsson
8. september 2009 kl. 10:34

Hausttamningar í gangi víða um land

Hestamenn eru þegar byrjaðir að undirbúa sig fyrir LM2010 á Vindheimamelum. Á tamningastöðvum víða um land er verið að frumtemja trippi á fjórða og fimmta vetur, bæði hryssur og stóðhesta. Þar á meðal eru væntanlega verðandi stjörnur í yngri flokkum kynbótahrossa á Landsmóti.

Það er ekki nýlunda að haustmánuðirnir séu nýttir til frumtamninga; að taka trippi á hús í september og október, gera þau bandvön og hnakkvön, og jafnvel reiðfær. Sleppa þeim síðan út aftur á góða beit. Þá er eins og þau taki andlegt stökk í þroska í hvíldinni. Engu líkara en þau hafi notað tímann til að hugsa málið og séu búin að taka ákvörðum um að hefja samstarf við manninn af einhug þegar þau koma á hús aftur um áramótin.

Það fylgir jafnan mikil spenna fyrstu skrefunum í hausttamningunum. Löng bið er á enda og brátt kemur í ljós hvort trippið stendur undir væntingum. Mikið er spáð og spekúlerað. Vonarstjörnur rísa og falla. Það kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en eftir dóma næsta vor hver verður stjarna og hver ekki. Oftar en ekki rætist í þessu sambandi sú gamla speki að þeir fyrstu munu verða síðastir og þeir síðustu fyrstir. En sem sagt: Geimið er byrjað. Meira um spennandi trippi í næsta tölublaði af Hestar&Hestamenn sem kemur út 24. september.