miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Leiðarann þarf að einfalda og skýra betur" - viðtal við Huldu G. Geirsdóttur -

14. mars 2011 kl. 16:44

"Leiðarann þarf að einfalda og skýra betur" - viðtal við Huldu G. Geirsdóttur -

Hulda G. Geirsdóttir, Bent Rune Skulevold og Þorgeir Guðlaugsson fengu afgerandi kjör í kosningu nýrra fulltrúa í íþróttadómaranefnd FEIF sem fram fór á dögunum. Eiðfaxi sló á þráðinn til Huldu vegna hins nýja ábyrgðarhlutverks og spurði hana um verkefni og hlutverk nefndarinnar.

„Kjörnir fulltrúar sitja í nefndinni í tvö ár í senn en hlutverk hennar er að fara yfir málefni sem snúa að íþróttadómum, fjalla um reglur, menntun og öll þau mál er varðar íþróttakeppnina beint og óbeint. Hún lætur sig einnig varða hagsmuni dómara, aðstöðu og aðbúnað þeirra þannig að dómsstörf geti gengið sem best,“ segir Hulda.

Hún telur eitt af stærri verkefnum nefndarinnar á næstunni snúa að því að bæta leiðarann, leiðbeiningar sem dómarar fylgja við dæmingu. „Nú er mikil endurskoðun á leiðaranum í gangi og þá þarf að koma með tillögur hvernig megi bæta hann. Ég tel að hann sé of loðinn og flókinn í dag. Leiðarann þarf að einfalda og skýra betur svo betra sé að vinna með hann. Síðan er verið að horfa til þess hvernig megi bæta menntun dómara og auka alþjóðlegt samstarf, þannig að dómarar fari reglulega á milli landa að dæma,“ segir Hulda og bætir við að mikill faglegur metnaður sé í nefndinni.

Í viðtali sem birtist hér á Eiðfaxa við Gunnar Sturluson, nýjan stjórnarmann FEIF, lýsti hann mikilvægi þess að Ísland taki forystu í alþjólegum málefnum um hestamennsku. Hulda er því sammála. „Ég hef dæmt reglulega erlendis og hef mikinn áhuga á þessum málum. Ég gaf kost á mér vegna þess að ég tel mikilvægt að Íslendingar séu virkir í þessu samstarfi og eigi fulltrúa í þessum málaflokki,“ segir hún.