mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Látum ekki draga okkur á asnaeyrum lengur

Jens Einarsson
4. janúar 2010 kl. 11:46

Ríki og sveitarfélög ekki aflögufær næstu árin

„Við munum leita allra leiða til að standa við skuldbingingar okkar,“ segir Kristinn Guðnason, formaður Ragnárhallarinnar ehf. og fyrrverandi formaður Geysis á Rangárvöllum. Eins og kunnugt er ákvað stjórn LH nýlega að hefja viðræður við Fák í Reykjavík um að halda LM2012.

„Gaddstaðaflatir eru byggðar upp sem hestasvæði, en við gætum þurft að fórna einhverju í því sambandi ef sýnt þykir að annarskonar uppákomur gefi okkur meiri tekjur en hestamót,“ segir Kristinn. „Uppbygging á Gaddstaðaflötum hefur miðast við að svæðið fengi annað hvert Landsmót, allavega til 2020. Ég held ég geti sagt að flestir hafi talið að Landsmótsmál okkar hestamanna væru komin í þann farveg og sátt um það. Áætlanir okkar í því sambandi eru nú hrundar og ekkert annað að gera en leita nýrra leiða. Ég get ekkert sagt um hvað verður uppi á teningnum, þetta er svo nýtilkomið. En það kemur allt til greina í því sambandi.

Reyndar má líka spyrja sig hve fýsilegur kostur Landsmótin eru ef það er eindregin stefna Landsmóts ehf. að mótin greiði enga leigu til svæðanna. Ég sé ekki fyrir mér að ríki og sveitarfélög séu í stakk búin að byggja upp mörg Landsmótssvæði fyrir hestamenn næstu árin.“

Formaður LH lætur í veðri vaka í viðtali við Fréttablaðið að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um Landsmót í Reykjavík. Aðeins sé um viðræður að ræða. Hvert er þitt mat á því? Eiga Gaddstaðaflatir kannski ennþá möguleika?

„Ég held við látum ekki draga okkur á asnaeyrunum lengur. Samkvæmt lögum og reglum LH átti staðarval að liggja fyrir í júní síðastliðnum. Sá dráttur sem orðið hefur á þeirri ákvörðun hefur ekki verið skýrður með rökum. Þetta er mjög slæmt fyrir þá aðila sem sækjast eftir að halda mótin. Enda allir sammála um að tveggja ára fyrirvari um staðarval er lágmark. En nú hefur lopinn verið teygður í hálft ár og það á að teygja hann enn meira. Í þeirri stöðu teljum við skynsamlegast að byrja fyrr en seinna að skoða hvaða möguleika við eigum,“ segir Kristinn Guðnason.