laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Langar þig að senda hrossið þitt í þjálfun á Hóla ?

19. júní 2012 kl. 17:10

Mynd tekin af: www.holar.is

Langar þig að senda hrossið þitt í þjálfun á Hóla ?

Nú er leitað eftir hrossum í vinnuna á haustönn 2012. Önninni er skipt upp í tvö tímabil, og stendur hið fyrra frá 30. ágúst til 20. október, en hið seinna frá 22. október til 8. desember.

Kallað er eftir hrossum í þessi verkefni:

Frumtamning. Grunnvinna, sem miðar fyrst og fremst að því að gera trippin reiðfær. Samhliða er lögð áhersla á teymingar og aðra vinnu við hendi. Í mörgum tilvikum geta trippi sem koma í frumtamningar haldið rakleiðis áfram í grunnþjálfun, en það er þó ekki skilyrði. Gert verður stutt hlé á milli þessara námskeiða.
Forkröfur: Trippin komi fortamin (a.m.k. bandvön). Þau þurfa að hafa náð góðum þroska. Æskilegt er að þau séu undan 1. verðlauna stóðhestum.
Frumtamning verður á fyrra tímabili (30. ágúst til 20. október). 

Grunnþjálfun. Megináhersla er lögð á að gera hrossin góð í beisli, þjálfa samspil hvetjandi og hamlandi ábendinga, sem og gangsetningu. Enn frekari uppbygging þreks, jafvægis og vilja.
Forkröfur: Grunnþjálfunin er framhald frumtamningar. Trippin skulu vera vel reiðfær utan dyra og teymast vel með manni.
Grunnþjálfun er í boði á báðum tímabilum, 30. ágúst til 20. október og 22. október til 8. desember.

Þjálfun. Fyrir (meira) tamin hross á 5. -12. vetri af öllu tagi en þó eru ekki tekin gölluð hross eða hættuleg (s.s. hrekkir, rokur, slægð, húslestir). Við komuna á staðinn þurfa þau að vera í lágmarksþjálfun. Þessi áfangi er alhliða þjálfun reiðhests með áherslu á bætta svörun ábendinga, jafnvægi, hreyfingar og rými á öllum gangtegundum.
Forkröfur: Hrossin þurfa að vera heilbrigð og laus við galla, svo sem slægð, hrekki, húslesti eða áberandi viðkvæmni eða kaldlyndi.
Þjálfun er í boði á báðum tímabilum, 30. ágúst til 20. október og 22. október til 8. desember.

Hross sem koma í grunnþjálfun eða þjálfun skulu skilyrðislaust vera í þjálfun, og járnuð.
Hugsanlegt er að hross sem eru í frumtamningum eða grunnþjálfun á fyrra tímabili, geti haldið áfram á því seinna, sé þess óskað.
Það er þó ekki sjálfgefið að unnt verði að haga málum þannig.
Kostnaður - fyrir allt viðkomandi tímabil (ber ekki virðisaukaskatt), er kr.55.000. 

Innifalið: Allt uppihald, auk járninga (ef við á) og ormalyfsgjafar. Þeim sem hafa hug á að koma að hrossum í eitthvert þessara námskeiða, er bent á að leggja inn pöntun sem allra fyrst. Pantanir skulu skráðar í þetta eyðublað.