fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsmótið í brennidepli á Landsþingi

13. október 2014 kl. 16:21

Frá opnunarhátíð Landsmóts hestamanna 2014.

Tillögur um fjöldatakmarkanir og niðurfellingu keppnisgjalda.

Alls verða 54 tillögur lagðar fyrir Landsþing LH. Tíu af þeim fjalla á einn eða annan hátt um Landsmót.

Keppnisnefnd LH leggur til að til viðbótar þeim hestum sem vinna sér þátttökurétt á Landsmóti gegnum félögin, fái efstu 6 hestar á stöðulistum, sem ekki komast inn hjá sínum félögum, þátttökurétt á Landsmóti. Slík umræða hefur áður átt sér stað á Landsþingi og fengið mikinn hljómgrunn.

Keppnisnefnd LH  vilja rýmka reglur í úrtökum yngri flokka á þann veg að þau geti valið þann hest sem þau vilja nota í úrslit úrtökumóts óháð hestvali inn á Landsmót. Komi barn, unglingur eða ungmenni fleiri en einum hesti í úrslit fær hann að velja hest en keppnisnefnd sér ekki ástæðu til að hamla því að knapar í yngri flokkum mæti með einn hesta í úrslit úrtökumóts en annan á stórmótið sjálft, eins og segir í tillögunni.

Hestamannafélagið Sprettur leggur til verulegar breytingar á formi Landsmóta samkvæmt tillögu sinni. Vilja Sprettarar stytta mótið með því að takmarka fjölda kynbótahrossa í 150 hross og hrossa í A og B flokki niður í 40 hross í hverjum flokki. „Á laugardegi færu fram fjörmiklar og vel og kunnáttusamlega kynntar hópsýningar kynbótahrossa; samsýningar afburða ganghrossa hvort sem er klárhrossa eða alhliða gæðinga, verðlaunaveitingar og afkvæmasýningar stóðhesta,“  segir í tillögunni og vilja þeir um leið hækka mörk afkvæmaverðlauna og takmarka fjölda þeirra sem koma fram á mótinu. Þá vilja þeir stytta keppnir í skeiði og endurskoða form dýralæknaskoðana ásamt því að kanna rækilega hvort rekstur Landsmóts ehf þjóni tilgangi.

Vilja leggja niður Landsmót ehf.

Hestamannafélög á Suðurlandi, Geysir, Háfeti, Kópur, Logi, Smári, Sleipnir, Sindri og Trausti senda sameiginlega tíu tillögur til afgreiðslu á Landsþingi. Þeim er greinilega umhugað um Landsmót því sex þeirra fjalla um hátíðina.

Þau leggja til takmörkun fjölda hrossa á Landsmótum til að létta dagskrá og auka gæði mótsins. Þá vilja þau fyrirfram ákveðinn fjölda keppenda í gæðingakeppni mótsins. Sömu félög standa að tillögu þess efnis að fella niður sérstaka forkeppni og milliriðla á Landsmóti. „Í stað þess verði hefðbundið prógram riðið í forkeppni og síðan B-úrslit og A-úrslit. Ef keppendum í hverjum flokki er fækkað úr því sem hann var á síðasta LM (ca. 120) niður í 83 þá er nægur tímiu til að leyfa öllum að ríða sitt prógram,“ segir í tillögunni. Ennfremur óska þeir eftir því að ekki verði innheimt keppnisgjöld af keppendum á Landsmóti. Þá beina þau til stjórnar LH að leggja niður Landsmót ehf. og kalla eftir ráðstefnu um framtíð Landsmóts.

Fleiri félög vilja umfjöllun um Landsmót, m.a. hestamannafélagið Léttir sem kallar á opna umræðu um stöðu og framtíð Landsmóta.

Málfundur um stöðu og framtíðarhorfur landsmótahalda verður haldin í Hjarðarbóli í Mosfellsbæ á morgun, þriðjudag kl. 18-20.