mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsmót rúllar vel af stað

27. júní 2011 kl. 09:51

Díva frá Álfhólum, knapi Sara Ástþórsdóttir.

Díva stóð við tíuna í tölti í fordómi

Allt gengur samvkæmt uppskrift á LM2011 á Vindheimamelum — nema ef vera skyldi veðrið, sem ávallt hefur verið frábært á Landsmótum á þessum stað guðanna í Skagafirði. Það er þó alls ekki slæmt, 10 gráður og þurrt eftir því sem kemur fram á heimasíðu Landsmóts.

Hólahryssur verma efstu sætin í flokki sjö vetra hryssna, en þær voru fordæmdar í gær. Þóra, dóttir Þoku frá Hólum og Orra frá Þúfu, er efst með 8,72 í aðaleinkunn og er aðeins þremur kommum frá forskoðunardómi. Hún stóð vel fyrir sínu, fékk allar sömu einkunnir og í forskoðun, nema fyrir fegurð þar sem hún lækkar um hálfan. Fær 8,5 í staðinn fyrir 9,0. Hvort það er ásetningur dómnendar að hafa það lokatölu eða ekki kemur í ljós á yfirliti á fimmtudag. Engu að síður er Þóra er nokkuð örugg með að halda fyrsta sætinu til enda og feta þar með í fótspor móður sinnar, sem var efst í elsta flokki hryssna á LM2002. Knapi á Þoku 2002 var Þórarinn Eymundsson, sem er einnig knapi á Þóru nú.

Þrift, undan Þrennu frá Hólum og Adam frá Ásmundarstöðum er önnur með 8,45. Hún er með 9,5 fyrir framhluta og samræmi. Hún lækka talsvert í hæfileikadómi frá því í forskoðun, úr 8,50 niður í 8,21; um heilan fyrir skeið og fegurð. Knapi Mette Mannseth.

Spilda frá Búlandi er þriðja með 8,34, knapi Sigurður Sigurðarson, fjórða Sál frá Ármóti með 8,28 og fimmta Gæða frá Þjóðólfshaga 1 með 8,27, knapi Sigurður Sigurðarson. Í sjötta sætinu er svo Díva frá Álfhólum, sem gerði sér lítið fyrir og stóð við tíuna sína í tölti frá því í forskoðun. Vel af sér vikið að ná því í fordómi. Það eru því góðar líkur á að hún endurheimti sömu einkunn fyrir vilja í yfirliti, en hún fékk einnig tíu fyrir hann í forskoðun.