mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsmót: "Mikið af efnilegum tryppum"-

7. febrúar 2011 kl. 11:21

Landsmót: "Mikið af efnilegum tryppum"-

Mikið er um að vera á Auðsholtshjáleigu... 

Hrossaræktarbúið Auðsholtshjáleiga í Ölfusi hefur verið í fremstu röð í áraraðir og ávallt komið fram með stóran og myndarlegan hóp hrossa á Landsmóti hestamanna. Landsmot.is lék forvitni á að vita hvort undirbúningur fyrir Landsmót væri komin á fullt og tók Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur reiðkennara og tamningakonu á búinu tali.

„Tamningar ganga mjög vel og það er mikið af skemmtilegum og efnilegum tryppum. Við erum fjórar sem störfum við tamningar hér á búinu en auk mín eru þær Bylgja Gauksdóttir, Elsa Mandal og svo verkneminn Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir. Nú eru um 50 hross á járnum. Mest er af ungum hrossum sem eru á fjórða eða fimmta vetur.
 

Þórdís segir að það verður spennandi að sjá hvernig tryppin koma til undan vetri. „Að sjálfsögðu stefnum við með okkar bestu hross á LM. Stóðhesturinn Gígjar frá Auðsholtshjáleigu hefur nú þegar náð stigum til 1. verðlaunum fyrir afkvæmi og stefnt með afkvæmahóp undan honum í Skagafjörðinn“. „Það væri líka gaman ef Gári næði síðustu afkvæmunum inn til þess að hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Einnig eru þrjár hryssur frá búinu, þær Gígja, Trú og Vordís, sem eiga möguleika á heiðursverðlaunum.“

Til leiks í úrtökur fyrir gæðingakeppni telur Þórdís líklegt að þau Trostan frá Auðsholtshjáleigu, Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu og Þöll frá Garðabæ munu mæta til leiks auk Aspar frá Enni í töltið. Annars vill Þórdís lítið segja til um hverju verður teflt fram annað en að það séu nokkur ung og efnileg hross sem gaman verður að mæta með til leiks.

 

„Landsmótið leggst mjög vel í mig, það verður gaman að sjá nýja og flotta hesta koma fram og ég held að hestamenn almennt séu mjög fegnir því að það sé nýtt ár gengið í garð“ segir Þórdís að lokum og er rokin af stað enda nóg um að vera og það styttist óðum í Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði.