mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsmót 2016 hjá Spretti?

2. janúar 2014 kl. 17:02

Hestamannafélagið Sprettur

Eiðfaxi fékk senda þessa grein frá Jónasi Vigfússyni

"Já auðvitað eigum við að halda landsmótið 2016 á nýju mótssvæði Spretts að Kjóavöllum. Að vísu er verið að byggja svæðið upp og engin reynsla komið á svæðið til slíks mótahalds, en hvaða máli skiptir það. Það sem mestu máli skiptir er að formaður Spretts er Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem er einn aðalráðgjafi núverandi formanns LH og er í klíkunni. Sveinbjörn var fyrsti formaður stjórnar LM ehf. sem var mikið framfaraspor fyrir okkur hestamenn því tilgangurinn var að byggja upp þekkingu og reynslu og eignast fjármagn til að nýta til mótahaldsins. Að vísu er fólkið með reynsluna farið og peningarnir eru farnir, en við eigum rafmagnssnúrur með UMFÍ og við skulum ekki gera lítið úr því.

Sveinbjörn var formaður nefndar sem átti að móta framtíðarstefnu landmóta og hann er hugmyndafræðingurinn að þvi að landsmót 2014 verður haldið á Suðurlandi en ekki Norðurlandi. Hann lögfræðingurinn veit jafnframt að stjórn LH er ekki að láta lög og reglur trufla sig og gerir það sem henni sýnist og þegar henni sýnist. Þó reglurnar segi að velja eigi landsmótsstað með 5 ára fyrirvara, þ.e.a.s. landsmótsstaður fyrir landsmót 2018 átti að vera valinn í síðasta lagi í lok júni s.l. sumar og þá átti jafnframt að vera búið að semja um landsmótshaldið fyrir landsmót 2016. Hvorugt hefur verið gert og engin skýring verið gefin á því af hverju ekki. Þetta er bara einkamál stjórnar LH og kemur engum öðrum við. Þeir sem eru eitthvað ósáttir við þetta átta sig ekki á hvernig er að stjórna svona landssamtökum, það eru alltaf einhverjir óánægðir og yfirleitt alltaf þeir sömu. Þess vegna er best að draga allar óþægilegar ákvarðanir eins lengi og hægt er og gera svo bara eins og alltaf hefur verið gert og semja við þá sem þóknast valdhöfunum.

Einhverjir Skagfirðingar hafa verið að malda í móinn og haldið að mótið 2016 ætti að vera hjá þeim en þeir verða bara að bíða aðeins. Þeir frá næsta landsmót sem klíkunni þóknast að fara með norður yfir heiðar það geta þeir alveg verið öruggir með því félagslegt réttlæti þýðir að klíkan ræður og ef þú vilt vera með í að fá að spreyta þig á að halda landsmót þá þarft þú að vera þægur og gera eins og klíkan segir. Sjáumst hjá Spretti 2016."

Þórshöfn á Langanesi á jólum 2013
Jónas Vigfússon, Litla-Dal í Eyjafirðri