mánudagur, 17. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsmót 2010 haldið á næsta ári

13. ágúst 2010 kl. 14:35

Brot á samkomulagi segja Austurríkismenn

Landsmót 2010 verður haldið á Vindheimamelum fyrstu vikuna í júlí á næsta ári, 2011. Haraldur Þórarinsson, formaður LH og stjórnarformaður Landsmóts ehf., segir að ekki sé um að ræða Landsmót 2011, heldur sé aðeins verið að fylgja áður tekinni stefnu. Landsmóti 2010 hafi verið frestað um ár og við þá ákvörðun verði staðið. H&H hefur heimildir fyrir því að ekki sé samstaða um málið í röðum forystumanna í hestamannahreyfingunni.

Eins og greint hefur verið frá hér á vefnum þá eru Austurríkismenn, sem halda HM2011 á næsta ári, afar óhressir með að Íslendingar skuli ætla að halda Landsmót á sama ári og heimsmeistaramót. Þvert ofan í gildandi heiðursmannasamkomulag. Stjórn FEIF er einnig á móti Landsmóti 2011 og er beinn þátttakandi í HM2011. Ýmsir forystumenn hestamanna í Evrópu sem Haraldur fundaði með á Norðurlandamótinu í Finnlandi nýverið settu sig ekki á móti Landsmóti á næsta ári og sögðust hafa fullan skilning á erfiðri stöðu Íslendinga.

Það skal tekið fram að þeir keppendur sem áttu þátttökurétt í barna- unglinga- og ungmennaflokki á LM2010 halda sínum rétti og geta keppt samkvæmt ártali 2010, þrátt fyrir að vera komnir yfir aldur á næsta ári. Þá segir Haraldur að Landsmótið 2010, sem verður haldið 2011, verði ekki auglýst með sama krafti erlendis og Landsmót sem haldið er samkvæmt hefðbundinni dagskrá.