mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landslið Íslands á NM2012

17. júlí 2012 kl. 12:44

Denni Hauksson keppir fyrir Ísland á Divar från Lindnäs, sem er ekki reyndur í sporti en fékk 8,54 í kynbótadómi nýlega. Fimmgangshestur með 9,0 fyrirskeið. Mynd/www:ishestnews.se/Zanna Hofvander

Tíu fullorðnir knapar og átta ungmenni munu keppa fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í hestaíþróttum, sem fram fer í Svíþjóð 2.-5. ágúst. Agnar Snorri Stefánsson á sex hesta í íslenska liðinu.

Norðurlandamótið í hestaíþróttum verður haldið í Eskilstuna í Svíþjóð dagana 2. – 5. ágúst. Hafliði Halldórsson liðsstjóri hefur ásamt landsliðsnefnd LH, þjálfurunum Jóhanni R. Skúlasyni og Hugrúnu Jóhannsdóttir, tilkynnt skipan íslenska liðsins.

Liðið er skipað tíu fullorðnum knöpum og átta ungmennum. Knapar búsettir hér heima eru flestir farnir utan til að þjálfa sína hesta, sem allir nema einn eru fengnir að láni ytra. Margir knapanna eru búsettir erlendis og með sína hesta þar.

Hafliði Halldórssón segist nokkuð ánægður með liðið, þótt vissulega setji strik í reikninginn að allir hestarnir nema einn séu staðsettir í útlöndum og ekki hægt að fylgjast með þeim frá móti til móts. Enginn knapi sóttist eftir sæti í liðinu með hest héðan að heiman, nema Stella Sólveig Pálmarsdóttir, sem fer með hestinn Svaða frá Reykhólum.

„Í þessu vali höfum við orðið að styðjast við myndefni, árangur knapa og hesta, og umsagnir knapa og reiðkennara sem eru að aðstoða og þjálfa knapana. Við þekkjum þetta fólk vel og ég að við höfum komist eins nálægt sannleikanum eins og hægt er.

Það eru feikna sterkir hestar í liðinu. Týr frá Auðsholtshjáleigu, sem er í eigu Agnars Snorra Stefánssonar en Þórður Þorgeirsson mun keppa á, er einn sterkasti töltarinn á Norðurlöndum í dag. Agnar og Týr unnu til dæmis Nils Christian Larsen og Mola frá Skriðu á móti í sumar, en Moli er talinn sá sterkasti á Norðurlöndunum þetta tímabilið.

Agnar Snorri keppir sjálfur á feikna sterkum fimmgangshesti, Fengur fra Staagerup, en þeir hafa verið sigursælir í fimmgangi, gæðingaskeiði og slaktaumatölti. Svo er þarna annar hestur frá Auðsholtshjáleigu, Tór, sem Reynir Örn Pálmason mun keppa á. Þetta er hestur sem hefur verið á toppi í slaktaumatölti og er auk þess flottur töltari og fjórgangshestur. Agnar Snorri á nú hvorki fleiri né færri en sex hesta í liðinu, þannig að við Íslendingar eigum honum mikið að þakka. En ég held að þetta verði mjög skemmtileg keppni. Jóhann og Hugrún eru topp fagmenn og nú fara bara í hönd æfingar og pælingar. Ég er bjartsýnn á góðan árangur,“ segir Hafliði.

Rétt er að benda á að hægt verður að kaupa aðgang að beinni útsendingu frá mótinu dagana 4. - 5. ágúst á vefsíðunni www.nc2012.se

Fullorðnir:
1 Agnar Snorri Stefánsson Fengur fra Staagerup F1, T2, P1, P2, PP1*
2 Denni Hauksson Divar från Lindnäs T1, F1, P2, PP1
3 Eyjólfur Þorsteinsson Losti frá Strandarhjáleigu T1, V1
4 Guðlaug Marín Guðnadóttir Toppur frá Skarði P1, P2
5 Hinrik Þór Sigurðsson Andvari från Stenlia T1, F1, P2, PP1
6 Jón Bjarni Smárason Gaukur frá Kílhrauni V1, T2*
7 Reynir Örn Pálmason Tór frá Auðholtshjáleigu V1, T2*
8 Snorri Dal Viktorius frá Höfn T1, V1
9 Viðar Ingólfsson Skvísa vom Hrafnsholt V1, T2
10 Þórður Þorgeirsson Týr frá Auðholtshjáleigu T1, V1*

TIL VARA: Eyjólfur Þorsteinsson B-Moll frá Vindási T1, V1

Ungmenni:
1 Dagbjört Hjaltadóttir Reynir frá Hólshúsum T1, V1
2 Elín Rós Sverrisdóttir Hector från Sundsby T1, V1
3 Flosi Ólafsson Kveikur fra Lian T1, V1+
4 Helena Kroghen Aðalsteinsdóttir Fiðla frá Þingeyrum F1, T2, P2, PP1
5 Kári Steinsson Spyrnir frá Grund 2 T1, V1
6 Ragnheiður Hrund Ársælsdóttir Vordís frá Hofi 1 T1, V1
7 Stella Sólveig Pálmarsdóttir Svaði frá Reykhólum T1, V1
8 Teitur Árnason Pá fra Eyfjord T1, F1, P1, P2, PP1*

TIL VARA: Helena Kroghen Aðalsteinsdóttir Silfri frá Litlu-Sandvík T1, V1

LIÐSHESTUR TIL VARA: Dans frá Seljabrekku F1, T2, PP1*