mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landslið Íslands kynnt um helgina

12. júlí 2011 kl. 10:42

Anne Stine Haugen á Muna frá Kvistum mun veita Íslendingum harða keppni í tölti á HM2011 ef að líkum lætur.

Eigum góða möguleika í öllum greinum, segir Hafliði Halldórsson

„Við eigum möguleika í öllum greinum,“ sagði Hafliði Halldórsson, annar liðstjóri íslenska landsliðsins í hestaíþróttum þegar Hestablaðið sló á þráðinn til hans í morgun. Íslenska liðið mun verða kynnt á laugardagskvöld eða í síðasta lagi á sunnudag.


Hafliði og Einar Öder Magnússon tóku púlsinn á þýska meistaramótinu um liðna helgi. Þar voru íslenskir knapar áberandi. Haukur Tryggvason var efstur í fimmgangi á Baltasar frá Freyelhof, sem hann keppti á fyrir Ísland á HM2009 í Sviss. Þeir fengu brons í gæðingaskeiði. Styrmir Árnason var efstur í slaktaumatölti á Hrana frá Schossberg. Báðir eru til reiðu í landslið Íslands.

Íslenskir knapar fóru hratt í 250 m skeiði. Sigurður Óskarsson náði silfri á Kormáki frá Kjarnholtum á 22,40 sekúndum og Styrmir Árnason á Borgari frá Eyrarbakka náði bronsi á 22,85 sekúndum. Gullið tók hins vegar Annabell Steuer á Geisu frá Reykjavík, sem er undan Galsa frá Sauðárkróki og Kolu frá Hindisvík.

Í tölti voru sterkir keppendur sem fengu háar einkunnir. Karly Zingsheim varð efstur á Degi, sem er upprunalaus í skrá, með 9,17, sem er rosa einkunn. Annar þýskur keppandi Frauke Schenzel á Tígli frá Kronshof varð í öðru sæti með 8,84. Þetta eru helstu tromp Þjóðverja í tölti og fjórgangi.

Hafliði segir að menn þurfi ekki að hræðast háar tölur. Reynslan sýni að einkunnir geti legið mishátt á milli móta og margt geti breyst þegar hestar komi í endanlegan samanburð á heimsmeistaramótinu sjálfu.

„Við eigum góða möguleika í öllum greinum. Við erum með góða hesta í hverju sæti sem þegar hefur verið valið, og við höfum úr ýmsu að spila varðandi þá keppendur sem eftir er að velja. Það verður gert nú um helgina og væntanlega mun frammistaða keppenda á Íslandsmóti hafa þar áhrif.

Keppni í tölti verður spennandi. Muni frá Kvistum og Anna Stina Haugen frá Noregi eru orðin firna sterk og það eru nokkrir verulega stórir og fagrir hestar á meginlandinu sem munu veita okkur harða keppni, þeir eru nánast eins og af öðru hestakyni og eru afar hrífandi í útliti. En það er ekki nóg, þeir verða að vera fimir og flinkir líka. Helsti styrkur okkar liggur hins vegar í afar reynslumiklum og góðum knöpum, bæði í fullorðins- og ungmennaflokki,“ segir Hafliði.