sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landsfundur Kulsfélagsins

6. janúar 2010 kl. 13:38

Landsfundur Kulsfélagsins

Hinn árlegi landsfundur Kulsfélagsins fer fram í veitingasal reiðhallar Gusts í Glaðheimum á föstudagskvöldið kemur, 8. jan. kl. 20. Samkoma þessi er heimsfræg, eingöngu ætluð körlum, og rómuð fyrir að vera hlaðin menningarlegu gildi. Kulsfélagið er eignarhaldsfélag um hestinn Kul, en hefur undanfarin ár ekki síður lagt áherslu á menningu og mannrækt í sem víðustum skilningi. Kvöldið hefst að venju á fordrykknum Kul sterka en svo verður boðið upp á skemmtun að hætti Kulsmanna auk þess sem barinn mun verða opinn þar til síðasti maður fellur.

Í gegnum tíðina hafa fjöldamargir stórsöngvarar og ræðumenn glatt gesti Kulskvöldsins og í ár verða það þeir Einar Thoroddsen og Hermann Kristjánsson. Ræðumenn hafa yfirleitt verið núverandi, fyrrverandi eða verðandi ráðherrar og undir síðastnefnda titilinn fellur ræðumaður kvöldsins í ár sem er Einar Thoroddsen, læknir, vínguð (einardivino) skáld, sögumaður og manna best eygur. Einsöngvari kvöldsins er svo Hermann Örn Kristjánsson, en stundaði nám við Nýja tónlistarskólann árin 2005 - 2008 undir leiðsögn Sigurðar Bragasonar söngvara og Bjarna Jónatannsonar píanóleikara. Hann sótti einnig tíma á Ítalíu veturinn 2008 - 2009 hjá tenórsöngvurunum Kristjáni Jóhannssyni og Bruno Bulgarelli. Hermann hefur komið fram á ýmsum skemmtunum og uppákomum á vegum söngskólanna. Nýlega söng hann einsöng með hátíðarkór Keith Reed og Söngskóla Sigurðar Demetz sem flutti messuna Magnificat eftir Bach í Háteigskirkju.

Semsagt - stórkostlegt Kulskvöld framundan sem enginn maður með mönnum má missa af! Gestir eru velkomnir en fjörið hefst á föstudagskvöldið kl. 20.