laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landflótti kynbótaknapa

2. desember 2011 kl. 15:05

Landflótti kynbótaknapa

Tveir af okkar afkastamestu kynbótaknöpum hafa eða eru um það bil að yfirgefa landið og halda á vit nýrra starfa á meginlandinu. Sem kunnugt er hefur Þórður Þorgeirsson söðlað um og flutt starfsemi sína til Þýskalands. Samkvæmt heimildum Eiðfaxa er Erlingur Erlingsson í Noregi að skoða aðstæður og hyggst setja upp tamningastöð.

Erlingur var um árabil aðaltamningamaður hrossaræktarbúsins Fets þar til hann flutti starfsemi sína að Langholti í Hraungerðishrepp en hefur nú ákveðið flytja sig um set.

Þessir knapar eru meðal þeirra sem sýnt hafa flest kynbótahross á undanförnum árum, og eru því stór skörð höggvin í raðir kynbótaknapa með brottflutningi þeirra, nú þegar framundan er Landsmót í Reykjavík.

En alltaf kemur maður í manns stað. Breiddin í knapaflórunni er að aukast og ný kynslóð knapa er að koma fram. Sást það bersýnilega á þessu ári, þar sem nýir knapar á þessum vettvangi vöktu verðskuldaða athygli með glæsilegum árangri.