þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Landeyjar í skotlínu í norðaustanátt

Jens Einarsson
21. apríl 2010 kl. 10:51

Eigendur hrossa hvattir að flytja burt hross sín

Dýralæknar hvetja eigendur útigönguhrossa að flytja þau af svæðum þar sem mest hætta er talin á öskufalli. Svo virðist sem fólk hafi einfaldlega ekki trúað því að saga fyrri alda gæti endirtekið sig. Gríðarlegt öskufall varð undir Eyjafjöllum í norðanáttinni um síðustu helgi. Sveitir í Vestur-Skaftafellssýslu hafa einnig fengið sinn skammt.

Fæstir höfðu gert fyrirfram ráðstafanir þótt ljóst væri í hvað stefndi. Enn alvarlegra verður ef hann leggst í norðaustanátt, eins og ekki er óalgengt á vorin. Þá eru Landeyjarnar í skotlínu, en þar eru stærstu hrossastóðin. Margir þéttbýlisbúar eiga þar hross í uppeldi og vetrarfóðrun. Flest vel ættuð hross, ungviði og fylfullar hryssur. Engin leið er að hýsa öll hross á þessu svæði og ljóst að grípa verður til ráðstafana til að forða hrossum frá flúoreitrun.

Á meðan öskufall er, eða aska enn á jörðu, þarf að fyrirbyggja að hross, sem ekki er hægt að flytja burt, éti öskuna. Eina leiðin til þess er að birgja þau í þröngum haglausum hólfum og gefa þeim nægt hey og hreint vatn. Eiturefni úr öskunni skolast hratt ofan í jarðveginn í hressilegri rigningu. Sjá má frekari leiðbeiningar á vef Matvælastofnunar: www.mast.is.