þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lán í óláni

10. febrúar 2015 kl. 22:45

Álfhildur hvílir – Olil mætir með nýjan gæðing.

Sigurvegarar gæðingafimikeppni Meistaradeildar frá því í fyrra, Olil Amble og Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum, munu ekki reyna að verja sigur sinn næstkomandi fimmtudagskvöld. Olil mætir þó með velþjálfaðan keppnishest - Frama frá Ketilsstöðum.

„Við fundum að eitthvað var að hjá Álfhildi strax eftir  fjórgangskeppnina. Hún datt á hliðina á ísnum í vetur og tognaði í mjaðmagrindinni. Við það myndaðist vöðvabólguaog í kjölfarið fór hún að beita sér vitlaust sem þróaðist í það að nokkrum dögum eftir fjórganginn var hún alveg hætt að vilja safna sig og teygja. Á þessu vorum við því miður ekki nógu fljót að átta okkur. Nú er búið að meðhöndla hana og er hún greinilega á batavegi og er ég farin að trimma hana létt,“ segir Olil Amble.

Hún er þó hvergi banginn fyrir keppnina næsta fimmtudag. „Það var lán í óláni að ég fékk lánaðan frábæran hest í staðinn.“ Gæðingurinn Frami frá Ketilsstöðum mun fylla skarð Álfhildar á fimmtudag.  „Frami er ólíkur Álfhildi að mörgu leyti, en hann er svakalega skemmtilegur hestur og vel undir þetta verkefni búinn ,“ segir Olil og má því búast við miklu af þeim. „Þetta verður ólíkt prógramminu sem ég sýndi í fyrra. Fimi æfingarnar verða margar öðruvísi og líklegast nokkrar erfiðari ,“ segir Olil en þess má geta að Frami keppti í gæðingafimikeppni Meistaradeildar í fyrra, þá undir stjórn Bergs Jónssonar og urðu þeir í 9. sæti.

Gott flæði er lykillinn

Gæðingafimi er í miklu uppáhaldi hjá Olil. „Maður hefur svo mikið frelsi til að byggja upp prógramm  þar sem hesturinn nýtur sín sem best.“ Hún segir greinina byggjast á að ná upp góðu flæði og samspili milli æfinga og gangtegunda.  „Ég hef alltaf í huga að nota æfingar sem hesturinn ráði það vel við að hann haldi jafnvægi á gangtegundinni , eða bætir hann.“

Núna þegar tveir dagar eru til stefnu er Olil nokkuð róleg.  „Þessi keppni byggir á því að hesturinn kunni æfingarnar og hafi styrkinn til að framkvæma þær. Það þýðir til dæmis ekki að vera að kenna hestinum skylduæfingar, eins og sniðgang, rétt fyrir mót. Það breytist því lítið síðustu dagana fyrir mót. Ég hef aðeins verið að fínpússa prógrammið, fara yfir gangskiptingar og spá í lagavali.“

Ráslistar gæðingakeppninnar Meistaradeildar verða birtir á morgun. Keppnin fer svo fram í Fákaseli á fimmtudaginn og hefjast leikar kl. 19.