miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lærum hvert af öðru

Óðinn Örn Jóhannsson
23. mars 2018 kl. 08:29

Greifi frá Holtsmúla

Hver á að bjóða upp í þennan dans?

Lærum hvert af öðru

Fyrir nokkru fór ég á mjög góðan fyrirlestur dr. Þorvaldar Árnasonar um þjálfun afrekshrossa en þar fór hann yfir hugleiðingar sínar um að nýta það hugarfar sem þekkt er í frjálsum íþróttum og fyrirfærði það á þjálfun hrossa. Margt áhugavert kom þar fram en í framhaldi af þessum fyrirlestri hef ég verið að hugleiða hve oft okkur hættir til að vilja „finna upp hjólið“ þegar að hestamennskunni kemur. Eitt var það sem vakti athygli mína var það að Þorvaldur ræddi um að ekki ætti að hugsa þjálfun skeiðhrossa á sama hátt og þjálfun hrossa sem taka þátt í keppnisgreinum sem vara mun lengur tímalega séð. Þessu líkti hann við þjálfun spretthlaupara vs. Fjölþrautakappa og þá laust niður í hausinn á mér „AUÐVITAГ en eins og svo margt annað sem er svona augljóst hafði ég ekki séð þetta svona. Skeið- hross eiga aðeins að taka á í örfáar sekúndur af öllu afli sem á ekki við um önnur keppnishross. Því verður þjálfun þeirra að miða að því en ég ætla ekki að fara yfir þá fræði sem Þorvaldur miðlaði heldur hvað við getum nýtt þekkingu og hugarfar sem kemur annars staðar frá betur. Sem dæmi um það er það hugarfar sem þekkist í öðrum búfjártegundum.

Undirritaður starfaði um árabil sem dómari í sauðfjárrækt og fór vítt og breitt um landið til að dæma hrúta og gimbrar. Ávallt var hrútasýningardagur hátíðisdagur þar sem komið var, bændur og búalið höfðu oft á tíðum tekið daginn frá og biðu í ofvæni eftir að ráðunautarnir kæmu. Í dómunum var ráðunauturinn í miðjum hópi áhugasamra bænda sem skeggræddu dómana nánast um leið og þeir féllu. Þarna er hefð fyrir samspili og samtali ræktenda og fagaðila en líkt og í hrossaræktinni eru menn ekki alltaf sammála. Við þessi samskipti er misskilningi oftast eytt jafnóðum, dómari fær færi á að útskýra vafaatriði og ræktandinn faglega leiðbeiningu sem nýst getur honum í ræktuninni.

Þetta hugarfar er oftast ekki uppi þegar kemur að dómum á hrossum, en af hverju ekki? Aðgengi að dómurum er oft á tíðum lítið en þeir sitja inn í bílum sínum eða á dómpöllum og samtal við eiganda/ræktanda er oftast nær takmarkað. Þetta er hefð sem hefur skapast en hvers vegna?

Er það kannski vegna þeirrar óvægnu gagnrýni sem þeir verða oft fyrir?

Eða kannski vegna þess að oft á tíðum eru undantekningarnar teknar sem algild dæmi eða vegna útúrsnúninga á því sem sagt er þegar hiti er í umræðunni?

En er þetta eitthvað sem hægt er að breyta?

Það er jú þannig almennt með dóma að enginn kemur á kappleik eða keppni til þess að halda með dómaranum. Hann fær sjaldnast klappið þegar hann stendur sig vel en oftar lastið þegar vafi leikur á. Við hesteigendur verðum að færa umræðuna á hærra plan og halda okkur við málefnalega umræðu. Öll gagnrýni á rétt á sér sé hún lögð fram á sanngjarnan og málefnalegan hátt, en hafa ber í huga að dómarar líkt og aðrir leggja ekki störf sín upp með illt í huga. Allir þeir sem ég þekki til leggja metnað í að vinna starf sitt af heilindum og af bestu getu, vitandi það að þeir eru jafnframt mannlegir og gera mistök. Dómstörf eru ekki hálaunastörf enda leitar hugur flestra dómara fyrst og fremst til þess að leggja sitt faglega mat á það sem fyrir augu ber. Eins á dómari ekki að taka það óstinnt upp sé hann gagnrýndur heldur taka til sín það sem hann á, læra af mistökum og bæta þeim í reynslubankann.

Með þessu hugarfari gætu eigendur/ræktendur og dómarar færst nær hvor öðrum en við það að færa umræðuna upp á hærra plan græða allir aðilar. Samtal milli fagaðila verður afslappaðra og misskilningi sem oftar en ekki er rótin eytt. Við það eitt að tala saman færum við hestamennskuna fram en þá er spurningin, hver á að bjóða upp í þennan dans?