miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynbótasýningar á meginlandi Evrópu

30. maí 2019 kl. 21:50

Hero frá Brunni

Fyrsti Belgíski stóðhesturinn í 1.verðlaun og hæst dæmdi þýski stóðhestur allra tíma

 

Kynbótasýningar á meginlandi Evrópu eru nú í fullum gangi. Þegar sýningarnar eru skoðaðar varðandi einkunna dreifingu virðist hestakosturinn vera misjafn á milli landa, en á öllum stöðum eru þó hross sem hlotið hafa háa dóma.

Á sýningu í Austurríki sýndi Jens Füchtenschnieder hæst dæmda stóðhest sem sýndur hefur verið af þeim hestum sem eiga upprunaland í Belgíu. Hesturinn er einnig fyrsti stóðhesturinn frá Belgíu sem fær 1.verðlaun í kynbótadómi.

Stóðhesturinn sem um ræðir heitir Hero frá Brunni fæddur árið 2012 og er því sjö vetra gamall. Hann er undan Álfasteini frá Selfossi og Hrefnu vom Hamersbruch sem er undan Ögra frá Hvolsvelli og Rán frá Akurgerði. Fyrir hæfileika hlaut Hero 8,32,  fyrir sköpulag 8,02 í aðaleinkunn 8,20.

Samkvæmt einkunnum er Hero mjög jafn alhliða stóðhestur með enga einkunn í hæfileikadómi undir 8,0. Hann hlýtur 8,5 fyrir tölt, skeið, vilja og geðslag og fet.

Á sýningu í Þýskalandi hækkaði Óðinn vom Habichtswald aðaleinkunn sýna frá eldri dómum og bætti þar með eigið met sem hæst dæmdi Þýsk fæddi stóðhesturinn. Það var nú sem áður Frauke Schenzel sem sýndi hestinn. Óðinn er fæddur árið 2010 og er því níu vetra gamall, hann hlaut fyrir sköpulag 8,46 og fyrir hæfileika 9,02 í aðaleinkunn 8,79.  Óðinn hlaut 9,5 fyrir tölt, vilja og geðslag og hægt tölt. Lægsta einkunn í hæfileikadómi er fyrir eiginleikann fet en það er 7,5.

Óðinn er undan Fannari frá Kvistum, Fannar fór einungis veturgamall út til Þýskalands og hlaut þar háan kynbótadóm, í aðaleinkunn 8,69. Fannar er undan Nagla frá Þúfu og Frigg frá Heiði sem er undan Elri frá Heiði og Fjöður frá Heiði. Fannar hefur verið að geta sér gott orð sem kynbótahestur en hann á, þegar þetta er ritað, 22 dæmd afkvæmi og er með 123 stig í kynbótamati. Hann væri því samkvæmt þessu með 1.verðlaun fyrir afkvæmi væri hann hér á landi.