mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynbótasýningar ársins 2010

7. apríl 2010 kl. 12:41

Kynbótasýningar ársins 2010

Nú líður að fyrstu kynbótasýningum ársins ekki er því úr vegi að fara yfir nokkur atriði sem máli skipta á þeim vettvangi. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Bændasamtaka Íslands bondi.is undir Hrossarækt.
Þau nýmæli verða tekin upp á vorsýningunum í Hafnarfirði og á Hellu (tvær yfirlitssýningar) að mögulegt verður að koma með sama grip aftur til dóms á sömu sýningu. Tilgangurinn með breytingunni er að gefa möguleika á endursýningu á sama stað sýnist mönnum svo.
Dæmi: Brúnka frá Brekku er sýnd í viku 1. Knapi telur að sýningin hafi mistekist. Knapi á tíma í viku 2 (annað skráð hross) og ákveður að koma á nýjan leik með Brúnku.
Knapi/eigandi verður að eiga skráðan tíma í viku 2 til að geta nýtt sér þennan möguleika sem þýðir að öllu jöfnu að annað þegar skráð hross verður af dómi. Hvað varðar verðlaunaveitingu yrði aftur litið svo á að um eina og sömu sýninguna væri að ræða.

Önnur nýmæli eru að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á vægi einstakra eiginleika við hæfileikadóma. Vægið á hinum einstöku eiginleikum sést hér fyrir neðan en þær breytingar sem urðu nú eru að skeið vegur nú 10% í stað 9% áður, vilji/geðslag vegur nú 9% í stað 12,5% áður og fet vegur nú 4% í stað 1,5% áður.
Vægi einstakra eiginleika:
Sköpulag                    Reiðhestshæfileikar
Höfuð                3%        Tölt                15%
Háls, herðar og bógar        10%        Brokk                7,5%
Bak og lend            3%        Skeið                10%
Samræmi            7,5%        Stökk                4,5%
Fótagerð            6%        Vilji og geðslag        9%
Réttleiki            3%        Fegurð í reið            10%
Hófar                6%        Fet                4%
Prúðleiki            1,5%
Samtals:            40%                        60%

Auk þessara breytinga var ákveðið að setja þröskulda á einkunnir fyrir tölt og stökk í þeim tilgangi að leggja meiri áherslu á takt og gæði gangtegundanna.
    Ef einungis er sýnt hægt tölt er hámarkseinkunn 8,5 fyrir tölt (óbreytt)
    Ef ekki er sýnt hægt tölt er hámarkseinkunn 7,5 fyrir tölt (er nú 8,0)
    Til að ná 8,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 7,5
    Til að ná 8,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,0
    Til að ná 9,0 eða 9,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5
    Til að ná 10,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 9,0

    Ef einungis er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 fyrir stökk (óbreytt)
    Ef ekki er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 fyrir stökk (er nú 8,5)
    Til að ná 8,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 8,0
    Til að ná 9,0 eða 9,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 8,5
    Til að ná 10,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 9,0

•    Hross sem koma til dóms skulu vera grunnskráð í WorldFeng og einstaklingsmerkt með örmerki.
•    Úr stóðhestum fimm vetra eða eldri þarf að hafa verið tekið blóðsýni við komu til dóms.
•    Stóðhestar sem koma til dóms skulu vera DNA-greindir svo og foreldrar þeirra.
•    Mælingar, þéttleikamat og skráning galla skal fara fram á eistum stóðhesta sem til dóms koma. 
•    Röntgenmynda skal hækla stóðhesta. Röntgenmyndirnar er heimilt að taka af hestunum á því ári sem þeir verða fimm vetra. Hestur hlýtur ekki dóm nema myndataka hafi farið fram og niðurstöður liggi fyrir í WorldFeng.
•    Járningin skal vera vönduð sem kostur er, eðlilegt samræmi sé milli tálgunar fram og afturhófa og hófhalli samsvari halla kjúkunnar.
•    Hófar mega ekki vera lengri en 9,0 cm. Undantekningu má gera þegar hæð á herðar mælist 137 - 144 cm, mælt með stangarmáli, þá má hóflengdin vera allt að 9,5 cm., og ef hæðin er 145 cm eða meira má hóflengdin vera allt að 10,0 cm. Ekki má muna meiru en 2 cm á lengd fram- og afturhófa.
•    Hámarksþykkt skeifna er 8 mm og hámarksbreidd 23 mm og skal sama breidd vera á fram- og afturfótaskeifum. Skeifurnar skulu vera samstæðar og úr samskonar efni. Efni skeifnanna hafi ekki meiri eðlisþyngd en hefðbundið skeifnajárn. Skeifurnar séu af hæfilegri stærð miðað við hófa og ekki má muna meiru í þykkt en 2 mm á fram- og afturfótaskeifum.
•    Leyfilegt er að nota skafla, þeir skulu þá vera tveir í hverri skeifu.
•    Afbrigðileg járning, s.s. uppsteyptir hófar, er óheimil.
•    Pottun skeifna er óheimil.
•    Heimilt er að nota alla hnakka og hnakkígildi sem ekki valda hrossinu óþægindum eða særindum og hæfa íslenskum hrossum.
•    Beislabúnaður skal fara vel, vera rétt stilltur og ekki valda hestinum eymslum eða særindum.
•    Með hringamélum er heimilt að nota enskan múl (með eða án skáreimar), þýskan múl, mexíkóskan múl og spangamúl. Með íslenskum stöngum, hálfstöngum og tvítaumsstöngum er heimilt að nota enskan múl (með eða án skáreimar) eða mexíkóskan múl.
•    Fótahlífar séu að hámarki 120 gr. (samanlagður þungi á hvern fót þ.e. legghlífar og hófhlífar) og í dökkum lit, svartar eða dökkbrúnar. Ef hlífar eru notaðar í hæfileikadómi þá skal sami búnaður notaður út alla sýninguna. Ef hlíf dettur af þá skal henni komið fyrir aftur áður en lengra er haldið.
•    Sami knapi sýni hrossin í einni og sömu sýningunni. Knapar skulu vera allsgáðir og sýni prúðmannlega reiðmennsku og þeir ásamt umráðamönnum hrossins sýni einnig  kurteisi og háttvísi í framkomu. Að öðrum kosti getur dómnefnd áminnt viðkomandi eða vísað frá sýningu.
•    Verði knapi í kynbótasýningu uppvís af því að hestur hans greinist með ólögleg lyf, sbr. lyfjareglugerð (nr. 635/1996), hlýtur hann dóm samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðareglum þar um. Hafi knapi gerst brotlegur samkvæmt lyfjareglugerð Landssambands hestamannafélaga (LH) eða FEIF gildir sá dómur sem hann hlýtur einnig í kynbótasýningum.
•    Notkun reiðhjálma er skylda og skulu þeir vera spenntir.

Viðurlög við ólöglegum búnaði eða járningum:
Fyrsta brot á viðkomandi sýningu:   
Opinber áminning, hrossi vísað af sýningu og dómur ógiltur. 
Annað brot á viðkomandi sýningu:   
Brottvísun knapa af sýningu, hrossi vísað af sýningu og dómur ógiltur.
Viðurlög við grófri reiðmennsku:
Fyrsta brot á viðkomandi sýningu:   
Opinber áminning.
Annað brot á viðkomandi sýningu:   
Brottvísun knapa af viðkomandi sýningu og dómur á viðkomandi hrossi ógiltur.

Vinnureglur við kynbótadóma
•    Járninga reglur.
Færri en átta ferðir riðnar þegar skeifa fer af > má koma aftur og klára sýningu.
Átta ferðir eða fleiri riðnar þegar skeifa fer af > kemur aðeins á yfirlitssýningu.
Skeifa af á yfirlitssýningu > getur komið aftur og klárað sýninguna.


•    Reglur um reiðdóm.
Færri en sex ferðir riðnar þegar ákveðið er að hætta af ófyrirséðum ástæðum > dómur ógildur.
Sex ferðir eða fleiri riðnar > dómur gildur.
Meira en hálf langhlið riðin > langhliðin talin með sem ein ferð.
•    Rakstur hrossa er leyfður, þó bannað að raka andlit, eyru og fætur.
•    Hægt og greitt, tölt og stökk á yfirlitssýningum.
Ef ná á einkunn hærra en 8,0 fyrir tölt eða hærri einkunn en 8,5 fyrir stökk, verður að sýna bæði hæga og greiða ferð á gangtegundunum á yfirlitssýningum.
•    Ef hrossi er riðið hvað eftir annað lengra en afmörkun brautar segir til um, getur það haft áhrif á vilja/geðslags einkunn.
•    Í byggingardómi er bannað að hófar séu málaðir eða klístraðir.
•    Teygjur í faxi eru bannaðar.
•    Réttleika dómar.
Við dóma á réttleika skal sú regla viðhöfð að gefa ekki hærri einkunn en 7,5 ef svo illa er staðið að teymingu að erfitt sé að sjá réttleikann fullkomlega.
•    Komi knapi ekki með hest til áverkaskoðunar eftir sýningu, skal honum veitt áminning.

Eistnaskoðun stóðhesta
Helstu áhersluatriði eru eftirfarandi:
•    Stinnleiki eistna. 
I     Góður stinnleiki, eistað þétt og fast viðkomu.
II    Þokkalegur stinnleiki, eistað sæmilega vel þétt viðkomu.
III    Stinnleiki ekki fyrir hendi, eistað lint og mjúkt.
•    Snúa eistun rétt, eistnalyppur eiga að vera aftan á eistanu.
•    Ekkert eista eða aðeins eitt.
•    Eistu óeðlilega smá.
•    Annað eistað mikið minna en hitt, 50% munur eða meira.
•    Heildarbreidd pungs TSW minna en 8 cm.
•    Þarmar finnast í pung.
•    Ef athugasemdir eru gerðar af mælingamanni eiga dómarar að skera úr um framhaldið. Ef einhverjar af ofantöldum athugasemdum eiga við, fær eigandi hestsins tvær vikur til að hnekkja áliti dómara með skriflegum úrskurði frá dýralækni sem berast skal til hrossaræktarráðunauts BÍ.
•    Ef ekki næst að skoða og mæla eistu á fullnægjandi hátt, þarf eigandi að skila dýralæknisvottorði um eistna heilbrigði gripsins. Að öðrum kosti er sett athugasemd í WorldFeng um að heilbrigði hafi ekki verið vottað af dómnefnd.

Reglur um afkvæmasýningar.
Sömu reglur gilda um búnað og annað hvað varðar afkvæmasýningar og talið er upp fyrir kynbótasýningar hér á undan. Hvað varðar járningar þá er heimild fyrir ákveðnu fráviki þegar um er að ræða afkvæmi sem tekur þátt í öðrum sýningaratriðum sama móts. Þá er heimilt að fara eftir reglum LH/FEIF um járningu en einungis ef sönnun liggur fyrir um þátttöku hrossins í gæðinga- eða íþróttakeppni á sama móti. Þetta á þó eingöngu við um þátttöku afkvæmis í afkvæmasýningunni sjálfri en ekki ef um er að ræða sýningu til kynbótadóms í einstaklingssýningu mótsins.
•    Fjöldi afkvæma sem fylgja skal stóðhestum í afkvæmasýningu skal vera sem hér segir: stóðhestar heiðursverðlaun 12; stóðhestar 1. verðlaun 6. Um útfærslu á sýningu skal samráð haft við sýningarstjórn og mótshaldara á hverjum stað.
•    Öll afkvæmi sem koma fram í afkvæmasýningu skulu hafa hlotið kynbótadóm
•    Afkvæmahestar geta einungis komið einu sinni til þátttöku í hvert verðlaunastig á landsmótum og fjórðungsmótum þ.e. 1. verðlaun og heiðursverðlaun og þeir þurfa að vera á lífi á Íslandi. Eignarhald skiptir engu um þátttöku né verðlaunun.
Dómnefnd skal semja dómsorð er lýsi þeim meginþáttum sem einkenna afkvæmahópinn.

Einkunnalágmörk á LM.
Fyrri ákvörðun um einkunnalágmörk fyrir landsmót á Vindheimamelum í sumar hefur nú verið breytt og lágmörkin lækkuð í sömu lágmörk og giltu fyrir landsmótið 2008. Lágmörkin verða því eftirfarandi:
Stóðhestar    4 vetra        8,00
Stóðhestar    5 vetra        8,15
Stóðhestar    6 vetra        8,25
Stóðhestar    7 v. og eldri    8,30

Hryssur        4 vetra        7,90
Hryssur        5 vetra        8,05
Hryssur        6 vetra        8,15
Hryssur    7 v. og eldri    8,20

Guðlaugur V. Antonsson
Hrossaræktarráðunautur BÍ.