laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynbótasýningar á hringvelli -

5. ágúst 2010 kl. 14:33

Kynbótasýningar á hringvelli -

Það hefur vart farið fram hjá neinum sem fylgist með kynbótasýningum að á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum fara dómar fram bæði á hringvelli sem og beinni braut.  Sýnendur eiga að sýna tvo hringi á hringvelli og eru þeir reiknaðir sem fjórar ferðir á beinni braut, afgangurinn af sýningunni er svo sýndur á beinni braut.

Yfirlitssýningin fer aftur á móti fram með hefðbundnu sniði.

 

Það er greinilegt að sitt sýnist hverjum varðandi þessa ráðstöfun sem þó á ekki að þurfa að koma neinum á óvart.

 

Á síðsumarsýningu á Gaddstaðaflötum í fyrra var þetta fyrirkomulag reynt til prufu og flestir sýnendur og eigendur voru nokkuð jákvæðir að því loknu þó að gagnrýnisraddir hafi vissulega heyrst.

 Að sögn Guðlaugs Antonssonar hrossaræktarráðunautar sótti Fagráð í kjölfarið  um leyfi til FEIF að halda kynbótasýningu með þessum hætti sem verður talin lögleg og einkunnir gilda sem löglegur kynbótadómur og var það leyfi veitt.

Aðspurður segir Guðlaugur ástæður þessarar tilraunar vera meðal annars að freista þess að gera kynbótasýningar áhorfendavænni, enda sýni mælingar að hver dómur tekur mun styttri tíma með þessu móti en með hefðbundinni sýningu á beinni braut. Hann bendir einnig á að það sé ekki alveg nýtt að kynbótasýningar fari að hluta til fram inni á hringvelli því erlendis hafi þetta tíðkast áður fyrr og á sýningum í Gunnarsholti hafi hringvöllurinn iðulega verið notaður við yfirlitssýningar án þess að athugasemdir hafi verið gerðar.  Framfarir eiga sér tæpast stað nema menn séu tilbúnir til þess að prófa nýja hluti segir Guðlaugur að lokum.

 

Meðal hrossaræktenda eru mjög skiptar skoðanir um þetta mál og viðmælendur okkar bentu meðal annars á að ekkert sem hringvallardómur hefði í för með sér væri að gefa meiri eða aðrar upplýsingar hjálpar í kynbótastarfinu. Kynbótadómar ættu að fara fram á beinni braut enda henti þær aðstæður ungum hrossum betur til sýninga en hringvöllur. 

 

Sumir eru einnig hugsandi yfir samræmi milli sýninga, umhverfisáhrif eru þáttur sem talað hefur verið um að skekki hugsanlega kynbótamatið. Hvaða áhrif hefur það á bæði kynbótamatið og samanburð á milli sýninga ef dómar á hringvallarsýningu eru taldir fullgildir dómar þó aðstæður séu í grundvallar atriðum allt aðrar spyrja sumir.

Aðrir eru jákvæðari gagnvart tilrauninni og telja vilja meina að tilraunir eigi rétt á sér ef þær séu til þess fallnar að auka líkur á að sérhver hestur fái sinn rétta dóm.  Menn eigi að vera jákvæðir, ef menn séu fyrirfram neikvæðir hefur tilraunin ekkert uppá sig.  Máli sýnu til stuðnings nefna menn dæmi um hesta sem hafa fengið háar einkunnir til dæmis fyrir tölt í kynbótadómi en þegar í keppni hafi komið hafi þessir hestar varla risið upp fyrir meðallag, hringvallardómur getur hugsanlega komið í veg fyrir þetta ef það er á annað borð markmið að gott tölt í kynbótadómi sé sama töltið og dæmist vel í keppni.

 

Rök með tilrauninni sem koma fram eru einnig að hross sem koma til kynbótadóms, þó ung séu eigi að kunna að ganga beygjurnar á hringvelli það sé liður í eðlilegri grunnþjálfun hrossa að kenna þeim að ganga beygjur. Hvað álag varðar sé það svo í höndum hvers knapa að velja það hvar hann beitir hrossinu til afkasta, í beygjum á hringvelli eða á beinu brautinni.

 

Grundvallaratriði fyrir því að tilraun sem þessi sé til gagns er hvernig niðurstöður úr henni eru meðhöndlaðar. Hvernig þær verða kynntar og fyrir hverjum þær verða kynntar, hvaða sjónarmið og hverra verða lögð til grundvallar þegar ályktanir verða dregnar og það metið hvort breytingarnar séu til bóta eða ekki.

Það er greinilegt eftir spjall við þá er málið varðar að skoðanir eru skiptar, hér fyrir neðan í glugga merktum „ummæli“ geta lesendur sett inn sínar athugasemdir um málið og viljum við á Eiðfaxa hvetja fólk til þess að segja sína skoðun. -hg