fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynbótasýning á Akureyri - video

20. júní 2011 kl. 12:10

Kynbótasýning á Akureyri - video

Kynbótasýning haldin dagana 7.-11. júní 2011 á Hlíðarholtsvelli á Akureyri og hlutu þar 12 hross einkunnarlágmörk fyrir Landsmót, fjórir stóðhestar og átta hryssur.

Efstur í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri varð Stáli frá Ytri-Bægisá I með aðaleinkunnina 8,41, hlaut hann 8,26 fyrir sköpulag og 8,50 fyrir hæfileika. Þar af fékk hann einkunnina 9 fyrir samræmi, hófa, prúðleika, skeið, stökk og vilja og geðslag. Stáli er undan Gusti frá Hóli og Nótt frá Akureyri.

Gustsonur hlaut einnig hæstu einkunn í flokki 6 vetra stóðhesta. Þorri frá Möðrufelli hlaut 8,27 í aðaleinkunn, 8,08 fékk hann fyrir sköpulag og 8,40 fyrir hæfileika.

Í flokki 5 vetra stóðhesta stóð efstur Kompás frá Skagaströnd, undan Hágangi frá Narfastöðum og Sunnu frá Akranesi. Hann hlaut 8,27 í aðaleinkunn, þar af 8,64 fyrir sköpulag og 8,02 fyrir hæfileika.

Í flokki hryssa 7 vetra og eldri varð efst Gletting frá Árgerði, undan Tristan frá Árgerði og Glæðu frá Árgerði. Hún hlaut 8,11 í aðaleinkunn, 7,94 fyrir sköpulag og 8,22 fyrir hæfileika.

Bylting frá Akureyri varð efst 6 vetra hryssa. Hún er undan Tígul frá Gýgjarhóli og Væntingu frá Brúnastöðum. Hún hlaut 7,79 fyrir sköpulag og 8,45 fyrir hæfileika, sem gefur 8,19 í aðaleinkunn.

Ferna frá Hólum varð efst 5 vetra hryssa. Hún hlaut 8,26 í aðaleinkunn, 8,16 fyrir sköpulag og 8,32 fyrir hæfileika. Ferna er undan Hróði frá Refsstöðum og Þilju frá Hólum.

Meðfylgjandi er myndband sem Inga Björg Ólafsdóttir tók af yfirlitssýningunni þann 11. júní sl.