laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kynbótadómarnir marklaust fúsk

18. júlí 2019 kl. 16:10

Byggingardómur

Upprifjun á HM í Sviss 1995

 

Nú þegar HM í Berlín nálgast er gaman að rifja upp ýmislegt úr sögu Heimsmeistaramótanna. Þessi grein birtist í Eiðfaxa árið 1995 og segir frá ósætti kynbótadómara á því móti.

Íslensku kynbótadómararnir voru mjög óánægðir með vinnubörgð meðdómenda sinna í kynbótadómnefndinni og fór svo að Jón Vilmundarson neitaði að skrifa undir dóma á tveimur hryssum og þurfti sérstakan fund til að útkljá málin.

Öðruvísi dómar en á Íslandi

Að þessu sinni voru sýnd þrjátíu kynbótahross á heimsleikunum í Sviss. Hver aðildarþjóð má senda fjögur hross í kynbótasýninguna. Það voru þó aðeins tvær þjóðir, Íslendingar og Þjóðverjar, sem mættu með fullskipað lið. Erlendis fara kynbótadómar fram með nokkuð öðrum þætti en hérlendis þar sem vægi einkunna er annað er annað en á Íslandi þ.e. hæfileikaeinkunnin vegur meira en byggingareinkunnin 60/40 auk þess sem gefnar eru einkunnir fyrir fetgang. Einn dómarinn fer síðan á bak hrossunum til að prófa vilja og geðslag. Átta hryssur fimm og sex vetra voru sýndar og tíu hryssur sjö vetra og eldri. Fjórir dómarar dæmdu hryssurnar og var Jón Vilmundarson einn þeirra, en hann prófaði einnig allar hryssurnar. Níu stóðhestar fimm og sex vetra voru sýndir en aðeins þrír sjö vetra og eldri.

Óánægja með dómana

Stóðhestanna dæmdu fimm aðrir dómarar og var Þorkell Bjarnason fulltrúi Íslands í þeirri dómnefnd. Er skemmst frá því að segja að Íslensku dómararnir voru mjög óánægðir með dómana á hrossunum og Þorkell sagði þessi vinnubrögð vera hreint fúsk, og Jóni Vilmundarsyni þóttu þessir dómar nánast marklausir. Þeim fannst dómarnir á hryssunum skera sig úr og voru sérstaklega óánægðir með einkunnir hryssnanna, Brynju frá Hafsteinsstöðum og Hnosslottu frá Wiesenhof. Brynja lækkaði fyrir sköpulag úr 8,25 í 7,83 og fékk m.a. 7,5 í einkunn fyrir háls hjá Þýska dómaranum en hafði í þremur síðustu kynbótasýningum fengið 9,0 fyrir háls. Þetta gerði það að verkum að Jón Vilmundarson neitaði að skrifa undir dóminn á þessum tveimur hryssum og varð þá allt kolvitlaust eins og Þorkell komst að orði. Þá var kallaður saman fundur dómara þar sem Jón féllst á að skrifa undir dómana eftir að ákveðið var að taka dómana kynbótahrossunum fyrir á fundi FEIF.

Gangslaust að vera með Pétur og Pál í dómnefnd

„Að mínu mati er algjört fúsk að senda einhverja menn til starfa í dómnefnd kynbótahrossa sem eru mest við hugann við frá hvaða þjóð hrossin eru en dæma þau þau ekki eins og þau koma fyrir“ Sagði Þorkell Bjarnason að afloknum dómstörfum. „Ísland hefur alltaf sent fagmenn til að gegna dómstörfum á HM en aðrir hafa ekki alltaf verið að hugsa um það. Þetta getur ekki gengið lengur. Við Jón sögðum að Íslendingar gætu ekki tekið þátt í þessu upp á það að vera með einhvern Pétur og Pál í dómnefnd, því þar með væri ekkert að marka þessa dóma. Við kröfðumst þess að skipuð yrði nefnd til þess að fara yfir þessi mál fyrir næsta heimsmeistaramót og þar yrði unnið á faglegum grunni, annars væri eins gott að sleppa því að kalla þetta dóma.“ Sagði Þorkell Bjarnason

Íslensku stóðhestarnir báru af

Íslensku stóðhestarnir báru all mikið af eins og sjá má af einkunnum. Fáni frá Hafsteinsstöðum fékk hæstu aðaleinkunn mótsins. Hann lækkaði niður í 8,62 fyrir hæfileika en hækkaði fyrir byggingu í 8,01 og fékk 8,38 í aðaleinkunn og var langhæstur í yngri flokki stóðhesta því Litfari frá Aufbachtal sem næstu kom fékk 8,00 í aðaleinkunn. Prúður frá Neðra-Ási hækkaði hins vegar í 8,60 fyrir hæfileika, m.a. gáfu tveir dómarar honum 10,0 fyrir skeið og hann vann einnig til gullverðlauna þvi þeir sem næstir komu, Goði frá Valen og Mergur frá Wendalinushof hlutu 7,70 í aðaleinnkunn