miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvennatöltið 15 ára

12. mars 2016 kl. 10:33

Kvennatöltið hefur frá upphafi verið eitt vinsælasta opna töltmót landsins.

Í ár fagnar hið eina sanna Kvennatölt fimmtán ára afmæli, en fyrsta mótið fór fram í reiðhöll Gusts í Glaðheimum árið 2001. Mótið er nú haldið undir merkjum Spretts og aðalstyrktaraðili mótsins í ár er Mercedes - Benz. Kvennatöltið markaði tímamót og hefur frá upphafi verið eitt vinsælasta opna töltmót landsins þar sem konur á ýmsum aldri og með mismikla reynslu af keppni finna sér vettvang til keppni á meðal jafningja, í góðum anda og gleði. Verðlaun og umgjörð hafa alltaf verið mjög vegleg og nú á afmælisárinu verður þar engin undantekning á. Mótið fer fram í Samskipahöllinni í Spretti laugardaginn 16. apríl nk. og verður að venju boðið upp á keppni í fjórum styrkleikaflokkum, fyrir byrjendur, minna keppnisvanar, meira keppnisvanar og opinn flokk. Aldurstakmark er 18 ár (miðað við ungmennaflokkinn).

Hestakonur eru hvattar til að taka daginn frá, nánari upplýsingar varðandi skráningu og fleira verða birtar þegar nær dregur, auk þess sem settur hefur verið upp viðburður á Facebook undir nafninu Kvennatölt Spretts og Mercedes – Benz 2016. Endilega meldið ykkur þar inn - þetta er mót sem enginn vill missa af!