mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvennatölt Spretts

2. apríl 2014 kl. 23:32

Kvennatölt Spretts

Skráning hafin

Undirbúningur fyrir Kvennatölt Spretts stendur nú sem hæst og stefnir í feiknaflott mót. Verðlaunin eru ekki af verri endanum, m.a. hestaferðir, flug með WOW Air, glæsilegir farandgripir, eignargripir o.m.fl. Veitt verða verðlaun fyrir glæsilegasta parið í öllum flokkum og í því samhengi verður litið til snyrtimennsku manns og hests, heildarútlits og samspils.

Umgjörð mótsins verður öll hin veglegasta, fimm reyndir dómarar dæma og markmiðið er að halda sterkt mót í góðri stemmingu.

Skráning hefst á föstudaginn kemur, 4. apríl og stendur til og með 8. apríl næstkomandi. Skráningargjald er kr. 4.500 á hest og má skrá fleiri en einn hest til þátttöku, en komi knapi fleiri en einum hesti í úrslit skal hann velja einn hest til úrslitakeppni. Aldurstakmark er 18 ár (miðast við ungmennaflokkinn).

Skráning fer fram á sportfengur.com undir "Skráningarkerfi" og þar undir á svo að velja "Mót." Þaðan á kerfið að leiða fólk áfram. Boðið er upp á fjóra keppnisflokka á mótinu:

  • Byrjendaflokk (skráður sem Annað í Sportfeng)
  • Minna vanar
  • Meira vanar
  • Opinn flokk

Hafi knapi sigrað einhvern flokk í Kvennatöltinu áður ber viðkomandi að færa sig upp um flokk. Það sama á við ef knapi hefur þrisvar eða oftar komist í A-úrslit í einhverjum flokki ber viðkomandi að færa sig upp um flokk. Knapar eru hvattir til að sýna metnað við skráningu í flokka.

Í byrjendaflokki er sýnt hægt tölt og svo tölt á frjálsum hraða, ekkert snúið við. Í hinum flokkunum þremur er sýnt hægt tölt, snúið við, sýnt tölt með hraðabreytingum og svo greitt tölt. Tveir til þrír knapar inni á vellinum í einu og þulur stýrir. Lögð er áhersla á góða og vinalega stemmingu og ekkert stress þannig að keppendur njóti sín sem allra best.

Afskráningar, breytingar og fyrirspurnir skulu berast á netfangið stella@marel.is

Kvennatöltið fer fram í hinni glæsilegu reiðhöll Spretts á Kjóavöllum laugardaginn 12. apríl nk. Forkeppni hefst að morgni og er stefnt að því að ljúka mótinu um kl. 18. Veitingasala verður á staðnum og vel fer um áhorfendur á pöllunum svo hestamenn eru hvattir til að mæta og fylgjast með flottu móti.

Við bendum á að stofnaður hefur verið viðburður á Facebook fyrir Kvennatöltið undir heitinu "Kvennatölt Spretts" og allir þeir sem melda sig þar inn fara í pott sem dregið verður úr á mótinu. Í verðlaun eru tveir miðar á hina glæsilegu stóðhestaveislu í Ölfushöllinni sem fram fer að kvöldi sama dags, 12. apríl. Endilega skráið ykkur þar inn og fylgist með fréttum af mótinu.