miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kvennatölt Spretts

28. mars 2014 kl. 08:56

Kvennatölt Spretts

Glæsilegasta parið í hverjum flokki verður verðlaunað sérstaklega

Hið eina sanna Kvennatölt fer fram laugardaginn 12. apríl nk. í nýju reiðhöll Spretts á Kjóavöllum. Að venju verður mikið um dýrðir á mótinu og sérstaklega mikið lagt upp úr veglegum verðlaunum. Glæsilegasta parið í hverjum flokki verður verðlaunað sérstaklega, auk þess sem veitt verða vegleg verðlaun í A og B úrslitum í öllum flokkum.

Að venju verður boðið upp á keppni í fjórum flokkum; Byrjendaflokki, minna keppnisvönum, meira keppnisvönum og opnum flokki. Byrjendur sýna hægt tölt og fegurðartölt, allir aðrir flokkar sýna hefðbundið töltprógramm, hægt tölt, snúið við, hraðabreytingar og svo greitt tölt. Aldurstakmark er 18 ár – miðast við ungmennaflokk. 

Nánari upplýsingar um skráningu verða birtar þegar nær dregur en nú er um að gera fyrir allar konur að gera sig klárar, hefja stífar æfingar og muna að hafa gaman af. Kvennatöltið var fyrst haldið fyrir 15 árum síðan í Gusti og hefur verið eitt vinsælasta innanhússmót ársins á hverju ári. Vegleg verðlaun verða í boði og aðstaða til keppni frábær í hinni nýju glæsilegu reiðhöll Spretts.