sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

KS-deildin - Tryggvi heldur með Bjarna

17. febrúar 2010 kl. 13:43

KS-deildin - Tryggvi heldur með Bjarna

KS-deildin hefst í kvöld með keppni í fjórgangi. Mótaröðin er geysisterk eins og sjá má á ráslistum fjórgangsins, reyndir og flinkir knapar etja kappi á þekktum gæðingum.

Eiðfaxi.is tók púlsinn á stemningunni fyrir kvöldið og sló á þráðinn til Tryggva Björnssonar tamningamanns á Blönduósi. Tryggvi sló á létta strengi og kvöldið leggst vel í hann. Hann tók þátt í KS-deildinni fyrsta árið en var ekki með í fyrra. Fyrirkomulagið er gott, keppniskvöldin eru á miðvikudögum, sem er mjög hentugt. Tryggvi spáir spennandi keppni og góðum hestakosti.

Tryggvi byrjaði þó á að segja frá því að hann kæmi ekki með Braga frá Kópavogi í fjórganginn, heldur 1.verðlauna stóðhestinn Penna frá Glæsibæ.

Hvað kemur til, er Bragi ekki heill?

Jú, Bragi er í fínu lagi. Ég ákvað bara að spara hann fyrir Ís-landsmótið á Svínavatni.

 

Hvernig hestur er Penni?

Hann er frábær hestur, efnisfjórgangari á sjötta vetur núna. Þetta er hestur sem ég hef verið með síðan hann var á fjórða vetur. Við náðum sigri í Húnvetnsku liðakeppninni um daginn og vorum efstir í fjórgangi í úrtöku fyrir KS-deildina. 

 

Þarna eru margir sterkir hestar og knapar. Hvernig spáirðu að þetta fari í kvöld?

Ég held með Bjarna (Bjarna Jónassyni). Ég held ég geti ekki unnið hann núna. Auk þess er Bjarni góður drengur, með frábært hross. Annars eru margir þarna sem geta unnið, Ólafur Magnússon á Gáska, Mette á Happadís, Ísólfur á Sindra svo einhverjir séu nefndir. Við Penni ætlum þó að gera okkar allra besta, eiga gott kvöld í Svaðastaðahöllinni.

 

Hvað með aðrar greinar deildarinnar? Heldurðu að þú tímir að "splæsa" Braga í töltið?

Ég veit það ekki, það verður að koma í ljós þegar nær dregur. En ég mæti að öllum líkindum með Óðinn frá Hvítárholti í fimmganginn. Mig vantar kandídat í smalann, ætli ég fái ekki lánaðan hest hjá vinnukonunni í það...aldrei að vita! En í skeiðinu er ég alveg blankur, ég verð að fá að hringja í vin þar, fá einn fljótan lánaðan.