miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

KS-deildin - myndbönd úr töltinu

4. mars 2010 kl. 13:50

KS-deildin - myndbönd úr töltinu

Í gærkvöldi var komið að næstu keppnisgrein í KS-deildinni í Svaðastaðahöllinni og var það tölt að þessu sinni. Flestir af sterkustu hestunum sem kepptu í fjórganginum voru mættir aftur og röðuðu sé aftur í efstu sætin þó endanleg röð hafi ekki verið sú nákvæmlega sama.

Spennan virðist ætla að fylgja þessari mótaröð því hún var síst minni að þessu sinni. Hólanemar voru aftur mættir í stúku til að styðja sína menn og fékk Þorsteinn Björnsson afar öfluga hvatningu sem fyrr.

Í B-úrslitum náðu Sölvi og Töfri forystunni eftir hæga töltið og virtust ætla að halda henni en með magnaðri yfirferð náðu Magnús og Farsæll að koma sér upp fyrir og komast þannig í A-úrslitin. Mette mætti aftur með Happadís og lentu þær í 8.-9. sæti með Þorsteini og Ögra, Þórarinn og Fylkir höfnuðu í 7. sæti og Sölvi og Töfri urðu sjöttu.

A-úrslitin voru svo æsispennandi. Jafnir í 4.-5. sæti urðu Magnús og Farsæll og Elvar og Mön en eftir að hafa riðið tvenn úrslit var Farsæll enn að fá allt að 9 fyrir yfirferð. Bjarni og Komma náðu þriðja sæti eins og í fjórganginum og jafnir í fyrsta og öðru sæti urðu svo Ólafur og Gáski og Ísólfur og Sindri. Ísólfur var kominn með ágæta forystu eftir hægt tölt og hraðabreytingar en eftir magnaða yfirferð hjá Ólafi þar sem fékk einkunn upp á 9 náði hann að jafna metin og komu þeir báðir út með 8,11 í einkunn. Þeir ákváðu að ríða ekki bráðabana og þurfti sætaröðun dómara til að skera úr um úrslitin og þar sem Ísólfur var hærri bæði fyrir hægt tölt og yfirferð hafði hann sigurinn að lokum.

Ef eitthvað er að marka fyrstu tvö mótin í þessari mótaröð þá er eftir miklu að vænta í næsta móti sem verður fimmgangur.  

Kíkið á myndböndin með fréttinni, bæði úr A- og B-úrslitum.

A-úrslit
    * 1. Ísólfur Líndal Þórisson – Sindri frá Leysingjastöðum II 8,11
    * 2. Ólafur Magnússon – Gáski frá Sveinsstöðum  8,11
    * 3. Bjarni Jónasson – Komma frá Garði 7,89
    * 4. Elvar E. Einarsson – Mön frá Lækjamóti 7,50
    * 5. Magnús B Magnússon – Farsæll frá Íbishóli 7,50

 
B-úrslit

    * 5. Magnús Bragi Magnússon – Farsæll frá Íbishóli 7,50
    * 6. Sölvi Sigurðarson – Töfri frá Keldulandi 7,22
    * 7. Þórarinn Eymundsson – Fylkir frá Þingeyrum 7,22
    * 8. Mette Mannseth – Happadís frá Stangarholti 7,11
    * 9. Þorsteinn Björnsson – Ögri frá Hólum 7,11
 


Stigasöfnun knapa
    * 1          Ólafur Magnússon 16 stig
    * 2          Ísólfur Líndal Þórisson 15 stig
    * 3          Bjarni Jónasson 14 stig
    * 4          Mette Mannseth 11,5 stig
    * 5          Elvar E. Einarsson 11,5 stig
    * 6          Þórarinn Eymundsson 7,5 stig
    * 7          Magnús Bragi Magnússon 7,5 stig
    * 8          Sölvi Sigurðarson 6,5 stig
    * 9          Þorsteinn Björnsson 1,5 stig
    * 10        Líney María Hjálmarsdóttir 1 stig
 

Einar Reynisson, fréttaritari Eiðfaxa.