miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Krossmúll með stöngum á bannlista

3. mars 2011 kl. 13:16

Krossmúll og stangir eru bannaðar í FIPO frá og með 1. apríl.

Stikkorð

Bannlisti FEIF  • Krossmúll  • Stangir

Bannið nær ekki til kynbótasýninga hér á landi

Mexíkóskur krossmúll og enskur reiðmúll með skáreim, notaður með íslenskum stangamélum og/eða öðrum mélum með vogarafli, verða settir á bannlista í FIPO reglum FEIF frá og með 1. apríl næstkomandi. FIPO reglur gilda í öllum aðildarlöndum FEIF og ná þar með yfir bæði íþrótta- og gæðingakeppni hér á landi.

Tillaga um þetta var samþykkt með meirihluta á sportráðstefnu FEIF, sem haldin var samhliða aðalfundi FEIF í Sviss um síðastliðna helgi. Miklar umræður urðu um málið. Hátt skrifaðir Íslendingar í röðum knapa og dómara eru á móti breytingunni, svo sem Sigurbjörn Bárðarson, sem hélt erindi um íslenska reiðhefð og notkun stangaméla á aðalfundinum. En einnig Sigurður Sæmundsson, fyrrum landsliðseinvaldur, og Sigurður Ævarsson, gæðinga- og íþróttadómari og stjórnarmaður í LH.

Ljóst er að kurr mun koma upp á meðal íslenskra knapa vegna bannsins. Stangir og krossmúll, sem er harðasti mögulegi leyfði beislabúnaður, er nánast orðinn staðalbúnaður í keppni og sýningum hér á landi, í öllum aldurs- og styrkleikaflokkum. Bannið nær þó ekki til sýninga á kynbótahrossum hér á landi, þótt Búnaðarfélag Íslands sé aðili að FEIF. Það fer eftir eigin reglum sem fagráð í hrossarækt semur.

Þess skal getið að athuganir og eftirlit með keppnishrossum á stærri mótum, einkum heimsmeistaramótum, hefur leitt í ljós að særindi í munni eru almennt minni á hrossum sem riðið er við íslensk stangamél á mótunum. Ekki hafa verið gerðar neinar rannsóknir á hvort notkun stanga og keðju getur leitt af sér annars konar áverka, til dæmis á beinum í neðri kjálka. Eða annars staðar í líkama hestsins vegna hugsanlegrar þvingunar.