fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Krókur frá Ytra Dalsgerði

9. júlí 2010 kl. 15:29

Krókur frá Ytra Dalsgerði

 Eiðfaxi fékk sendan eftirfarandi greinarstúf frá Kristni Hugasyni með fréttum af Króki frá Ytra Dalsgerði:

Stóðhesturinn Krókur frá Ytra-Dalsgerði, nr. IS2006165794 verður til afnota á Laugardælum við Selfoss það sem eftir lifir sumars.

Krókur hlaut 8,13 í aðaleinkunn nú á seinni héraðssýningunni í Víðidal og var efstur í flokki 4. vetra stóðhesta á þeirri sýningu og er þriðji hæstur yfir landið í sínum aldursflokki í ár. Krókur er fágætur glæsihestur, mjög stór (146 cm á herðar á stöng) en léttbyggður og hlaut 8,51 í meðaleinkunn fyrir sköpulag sem er þriðja hæsta meðaleinkunn fyrir sköpulag sem gefin hefur verið þetta árið. Einungis Seiður frá Flugumýri með 8,59 og Lektor frá Ytra-Dalsgerði með 8,55 eru hærri. Krókur hlaut 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, samræmi og prúðleika, 8,5 fyrir hófa og 8,0 fyrir höfuð, bak og lend og fótagerð og 7,5 fyrir réttleika.

Fyrir kosti hlaut Krókur 7,88 í meðaleinkunn en hann hlaut 8,5 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag, fegurð í reið og hægt stökk, hann hlaut 8,0 fyrir stökk og hægt tölt og 6,0 fyrir skeið og fet. Krókur er taktgóður á gangi, skef- og hreyfingamikill, brokkið svifmikið, stökkið hátt og takthreint, viljinn ásækinn og lundin þjál, hann er fas- og reisnarmikill í framgöngu. 

Að Króki stendur traust ræktun í sköpulagi, stærð og hæfileikum en faðir hans er Gári frá Auðsholtshjáleigu sem er öflugur alhliða gæðingur og alger tímamótahestur gagnvart kynbótum á sköpulagi, móðir Króks er Hnoss frá Ytra-Dalsgerði (IS1992265791) sem er 1. verðlauna hryssa og landsþekkt keppnishryssa í skeiði, m.a. Íslandsmeistari 2001, bestu tímar 22,0 sek. í 250 m skeiði og 7,4 sek. í 100 m flugskeiði. Í ljósi þessa og föðurættar Króks má telja öruggt að hann eigi eftir að stórbæta sig í skeiði. Hnoss er undan Safír frá Viðvík en Krókur sækir m.a. þangað einstaklega fagra makkalínu, í móðurætt Hnossar er að finna þekkt hross úr 100 ára ræktunarsögu hrossanna frá Ytra-Dalsgerði, s.s. Hrafnhildi frá Ytra-Dalsgerði sigurvegara hryssuflokks landsmótsins á Þingvöllum 1958 og fjórðungsmótsins á Sauðárkróki 1959 og Þyt frá Ytra-Dalsgerði sem hlaut 1. verðlaun 4 vetra á landsmótinu 1958 og 1. verðlaun f. afkvæmi á landsmótinu á Hólum 1966.

Folatollurinn hjá Króki er 80 þúsund krónur og hægt er að bæta hryssum í hólfið eftir hentugleikum en allar nánari upplýsingar veitir Kristinn Hugason í síma 891 9879, e-mail khuga@centrum.is